Innlent

Drómasýki í kjölfar svínaflensu: "Ég hef sofnað í sundi“

þórhildur þorkelsdóttir skrifar
Berglind Dúna Sigurðardóttir, sem fékk bætur frá ríkinu vegna þess að hún fékk drómasýki eftir bólusetningu við svínaflensu, segir fleiri einstaklinga með sjúkdóminn hyggjast leita réttar síns, þar sem þeir telji að hægt sé að rekja veikindin til bólusetningarinnar.

Berglind var fimmtán ára þegar hún fór í bólusetningu gegn svínainfluensu í lok árs 2010. Fljótlega eftir það fór hún að finna mikinn mun á heilsu sinni og var í kjölfarið greind með Drómasýki. Fjölskyldur hennar og tveggja annarra stúlkna leituðu eftir lögfræðiaðstoð árið 2012 þegar talið var að rekja mætti veikina til bólusetningarinnar. Hún segir mikinn létti að hafa loks fengið tengslin viðurkennd.

„Peningurinn er minnsta málið af þessu. Bara það að ríkið hafi viðurkennt tengslin. Í byrjun þegar ég fékk svínaflensuna þá vildi ég ekki fara í svínaflensusprautuna. Mamma mín lét mig fara í hana, þannig að henni hefur fundist ábyrgðin verið svolítið hennar, en hún er það ekkert,“ segir Berglind.

Drómasýkin hefur haft mikil áhrif á líf Berglindar. Þegar mest er þarf hún að leggja sig á klukkutíma fresti, og geta svefnflogin varað allt frá nokkrum mínutum í yfir klukkutíma. Hún er nú á lyfjum sem hjálpa henni að komast í gegnum daginn en er 75 prósent öryrki. Þá er hún með fylgisjúkdóminn kataplexí, sem veldur því að hún missir mátt í öllum vöðvum likamans þegar hún hlær.

„Ég er bara í rauninni búin að venja mig af því að hlæja og ef ég finn að ég er að fá kast þá einhvern veginn reyni ég að blokka allt sem gerist í kringum mig. Ég hef sofnað í sundi og í tímum, og ég sofna í rauninni alls staðar sem ég þarf að sofa. Því ef ég þarf að sofa þá sofna ég bara,” segir hún.

Berglind segist vita um fleiri einstaklinga, að minnsta kosti fjóra, sem fengu drómasýki á svipuðum tíma og hún sjálf, og veit til þess að þeir ætli að leita réttar síns í kjölfar þess að hún og hinar konurnar fengu bætur.

Hún segir mikilvægt að koma því á framfæri að þó að viðurkennt sé að tengsl hafi verið á milli drómasýki og svínaflensusprautunnar gildi það ekki yfir aðrar bólusetningar.

„Eins og ég hef alltaf sagt; ég myndi láta bólusetja börnin mín í þeim bólusetningum sem standa til boða, því það eru bólusetningar sem búið er að rannsaka í mörg ár. En þetta er bólusetning sem var bönnuð í sumum löndum af því að það var ekki búið að rannsaka hana nóg.”


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×