Fótbolti

Drogba: Leiðtoginn Ronaldo á skilið að vinna Gullboltann í ár

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Drogba og Ronaldo eftir leik Fílabeinsstrandarinnar og Portúgals á HM 2010 í Suður-Afríku.
Drogba og Ronaldo eftir leik Fílabeinsstrandarinnar og Portúgals á HM 2010 í Suður-Afríku. vísir/getty
Didier Drogba, fyrrverandi leikmaður Chelsea, segir að Cristiano Ronaldo eigi skilið að vinna Gullboltann 2016.

Ronaldo hefur átt gott ár, bæði með félags- og landsliði. Hann hjálpaði Real Madrid að vinna Meistaradeild Evrópu í vor og svo var hann fyrirliði Portúgals sem varð óvænt Evrópumeistari fyrr í þessum mánuði.

Drogba, sem leikur nú með Montreal Impact í MLS-deildinni í Bandaríkjunum, segir að Ronaldo verðskuldi að vinna Gullboltann, sem er veittur besta knattspyrnumanni í heimi, í ár.

„Ég spilaði á móti Cristiano í úrslitaleik Meistaradeildarinnar 2008 sem Manchester United vann,“ sagði Drogba.

„Hann er sannur leiðtogi og á skilið að vinna Gullboltann vegna frammistöðu sinnar með Real Madrid og portúgalska landsliðinu,“ sagði Drogba ennfremur og bætti því að það breyti engu þótt Ronaldo hafi farið meiddur af velli í úrslitaleik EM gegn Frakklandi. Hann hafi verið aðalástæða þess að Portúgal komst svona langt.

Búist er við því að Ronaldo missi af byrjun tímabilsins á Spáni vegna meiðslanna sem hann varð fyrir gegn Frökkum.

Ronaldo er einn þeirra tíu sem koma til greina sem Knattspyrnumaður ársins 2016 í Evrópu en hann þykir afar líklegur til að hljóta þá nafnbót.

Ronaldo hefur tvisvar sinnum unnið Gullboltann; 2013 og 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×