Körfubolti

Draymond Green um Durant: Ég hringdi milljón sinnum í hann

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Draymond Green, miðherji Golden State Warriors, viðurkennir fúslega að hann eltist harkalega við Kevin Durant eftir að NBA-tímabilinu lauk í júní en hann vildi fá hann til liðs við Golden State.

Durant yfirgaf Oklahoma City Thunder og er nú orðinn samherji Steph Curry, Klay Thompson, Draymond Green og félaga í Golden State en varla verður maður á lífi sem spáir þessu liði ekki sigri í NBA-deildinni á næstu leiktíð.

„Ég sóttist hart eftir honum. Ég var eins og þjálfari í háskóla að reyna að fá einn af fimm bestu menntaskóla leikmönnunum,“ sagði Draymond Green í skemmtilegu viðtali í spjallþætti Conan O'Brian.

„Ég hringdi í hann milljón sinnum og sendi honum milljón og eitt sms. Ég reyndi síðan að mæta alls staðar þar sem hann var þegar ég hafði tækifæri á því.“

„Þegar hann tók ákvörðun um að ganga til liðs við okkur áttaði ég mig á hvað ég var búin að gera. Ég velti því fyrir mér hvort hann virti mig áfram eins og karlmann.“

„Ég hringdi svo rosalega oft. Það hlýtur samt einhver stelpa að hafa farið meira í taugarnar á honum en ég. Ég efaðist samt um sjálfan mig,“ sagði Draymond Green.

Viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×