Körfubolti

Draymond Green biðst afsökunar á typpamyndinni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Green ýtti á vitlausan takka.
Green ýtti á vitlausan takka. vísir/epa
Það getur verið varasamt að ýta á vitlausa takka eins og körfuboltamaðurinn Draymond Green, leikmaður Golden State Warriors og bandaríska landsliðsins, komst að um helgina.

Green birti þá mynd af typpinu á sér á Snapchat. Myndin var um 10 mínútur í loftinu áður en hún var fjarlægð.

Green hefur nú beðist afsökunar á þessu óheppilega atviki.

„Þetta áttu að vera einkaskilaboð,“ sagði Green fyrir æfingu bandaríska landsliðsins í gær.

„Ég ýtti á vitlausan takka og það er glatað. Við erum öll einum smelli frá því að senda efni á vitlausan stað og það gerðist fyrir mig.“

Green hefur verið duglegur að koma sér í fréttirnar að undanförnu og þá ekki bara fyrir frammistöðuna inni á vellinum.

Fyrr í þessum mánuði var hann handtekinn fyrir að slá ruðningskappann Jermaine Edmondson á bar í Michigan. Hann játaði sök og þurfti að borga sekt.

Þá var Green dæmdur í eins leiks bann í miðju úrslitaeinvígi Golden State og Cleveland Cavaliers fyrir að sparka í punginn á LeBron James. Golden State tapaði einvíginu 4-3 og missti af NBA-meistaratitlinum.

Green og félagar hans í bandaríska landsliðinu mæta Nígeríu í Houston í nótt í síðasta æfingaleik sínum fyrir Ólympíuleikana í Ríó.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×