Íslenski boltinn

Draumur Ásgeirs Barkar rættist: Hermann algjörlega rétti maðurinn fyrir Fylki

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ásgeir Börkur ætti að fagna þjálfaraskiptum Fylkis.
Ásgeir Börkur ætti að fagna þjálfaraskiptum Fylkis. vísir/stefán
Ásmundur Arnarsson var rekinn sem þjálfari Fylkis í gær og við starfinu tók Hermann Hreiðarsson, fyrrverandi landsliðsfyrirliði.

Ásmundur stýrði Fylki í þrjú og hálft ár, en gengi liðsins í ár hefur verið langt undir væntingum og var hann því látinn taka pokann sinn.

Sjá einnig:Ásgeir Börkur reifst við stjórnarmann: Var klárað á staðnum

Líklega fagnar enginn nýjum þjálfara Fylkis meira heldur en fyrirliðinn Ásgeir Börkur Ásgeirsson sem fór ekki leynt með aðdáun sína á Hermanni Hreiðarssyni í viðtali við 433.is í október í fyrra.

„Hemmi Hreiðars er fyrst og fremst sigurvegari og hann er algjörlega rétti maðurinn fyrir Fylki. Svona gæjar vaxa ekkert á trjánum og þetta er maður sem myndi gera mikið fyrir félag eins og Fylki,“ sagði Ásgeir Börkur.

Ásmundur Arnarsson er farinn frá Fylki.vísir/daníel
Vantar hugarfar sigurvegarans

Miðjumaðurinn var þá á heimleið frá GAIS í sænsku B-deildinni, en á sama tíma var óljóst hvort Ásmundur Arnarsson yrði áfram þjálfari Fylkisliðsins.

Ásmundur byrjaði illa með Fylkisliðið síðasta sumar rétt eins og sumarið 2013, en var svo aðeins 20 mínútum frá Evrópusæti. Fylkir tapaði fyrir föllnu liði Fram í lokaumferðinni og missti Evrópusætið til Víkings.

„Það sem hefur vantað hjá klúbbnum undanfarin ár er hugarfar sigurvegarans. Félagið hefur verið í fallbaráttu og svo miðjumoði. Það þarf að koma með nýjan hugsungarhátt þarna inn og stimpla það inn í leikmennina líka,“ sagði Ásgeir Börkur.

„Hvað svo sem Fylkir gerir í sínum þjálfaramálum þá treysti ég öllu því góða fólki sem kemur að liðinu til að taka rétta ákvörðun í þeim efnum.“

Þrátt fyrir að ekkert varð af þjálfaraskiptum ákvað Ásgeir Börkur engu að síður að skrifa undir við Fylki og snúa heim í Árbæinn.

Um Hermann bætti hann svo við: „Ef Fylkir ætlar að stíga skrefið fram á við þá held ég að Hemmi sé algjörlega rétti maðurinn í brúnna en það er bara mín persónulega skoðun sem stuðningsmaður liðsins,“ sagði Ásgeir Börkur Ásgeirsson í október í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×