Handbolti

Draumabyrjun í fyrri en matraðarbyrjun í þeim síðari

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Estelle Nze Minko var markahæst hjá Frökkum.
Estelle Nze Minko var markahæst hjá Frökkum. Vísir/AFP
Franska kvennalandsliðið lét ekki slæma byrjun slá sig út af laginu í annarri umferð riðlakeppni Evrópumóts kvenna í handbolta í kvöld.

Frakkar unnu tveggja marka sigur á Þýskalandi, 22-20, og þær frönsku hafa fullt hús eftir tvær umferðir. Bæði liðin höfðu unnið leik sinn í fyrstu umferðinni.

Þýska liðið fékk sannkallaða draumabyrjun þegar liðið komst í 3-0 og 5-1 og þær þýsku voru 10-7 yfir þegar átta mínútur voru til hálfleiks.

Frökkum tókst hinsvegar að jafna metin í 11-11 fyrir hálfleik og það skipti miklu máli.Frakkarnir skoruðu síðan fjögur fyrstu mörkin í seinni hálfleiknum, komust í 15-11 og litu ekki til baka eftir það.

Þær þýsku skoruðu tvö síðustu mörk leiksins og löguðu stöðuna.

Estelle Nze Minko skoraði fimm mörk fyrir franska liðið og var markahæst. Laura Flippes skoraði fjögur mörk.  Svenja Huber var með sex mörk fyrir þýska liðið.

Slóvenar unnu á sama tíma tveggja marka sigur á Svíum, 25-23, en þetta var fyrsti sigur slóvenska liðsins í keppninni. Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en þær slóvensku skoruðu tvö síðustu mörkin í leiknum.

Svíar og Slóvenar hafa tvö stig eftir tvær umferðir en Serbar eru með fjögur stig eða fullt hús á toppi riðilsins.

Það dugði ekki sænska liðinu að Isabelle Gulldén skoraði tíu mörk í leiknum. Tamara Mavsar var markahæst hjá Slóvenum með sex mörk en hún kom Slóveníu í 24-23 í lokin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×