Fótbolti

Dramatískur ítalskur sigur í Makedóníu | Úrslit kvöldins | Sjáðu mörkin

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Tveir síðustu leikir þriðju umferðar í D- og G-riðli undankeppni HM í fótbolta voru leiknir á sama tíma og Ísland lagði Tyrkland í kvöld.

Í D-riðli vann Írland 3-1 sigur á Moldovíu á útivelli og Serbía lagði Austurríki 3-2 á heimavelli. Shane Long kom Írum yfir strax á annarri mínútu en Igor Bugaiov jafnaði metin á síðustu mínútu fyrri hálfleiks.

James McClean kom Írlandi yfir á ný á 69. mínútu og sjö mínútum síðar skoraði hann aftur og tryggði Írum sigur.

Írland er með sjö stig eftir þrjá leiki en Moldovía er án stiga.

Aleksandar Mitrovic kom Serbum yfir gegn Austurríki eftir aðeins sex mínútna leik en það tók Marcel Sabitzer aðeins níu mínútur að jafna metin. Mitrovic kom Serbíu aftur yfir aðeins átta míntum síðar og var staðan 2-1 í hálfleik fyrir Serbíu. Marc Janko jafnaði fyrir Austurríki á 62. mínútu en tólf mínútum síðar kom Dusan Tadic Serbíu yfir í þriðja sinn.

Serbía er með 7 stig á toppi riðilsins en Austurríki er með 4 stig í fjórða sæti.

Í G-riðli lagði Spánn Albaníu 2-0 í Albaníu og Ítalía vann dramatískan sigur á Makedóníu 3-2 á útivelli. Diego Costa kom Spáni yfir á 10. mínútu seinni hálfleiks eftir skelfileg mistök markvarðar Albaníu. Átta mínútum síðar bætti Nolito öðru marki við. Í Makedóníu kom Andrea Belotti Ítalíu í 1-0 á 24. mínútu og þannig var staðan í hálfleik.

Ilija Nestorovski jafnaði fyrir Makedóníu á 57. mínútu og tveimur mínútum síðar kom Ferhan Hasani heimamönnum yfir. Ciro Immobile jafnaði metin fyrir ítalíu þegar stundarfjórðungur var eftir af leiknum og á fyrstu mínútu uppbótartíma tryggði Immobile Ítalíu sigurinn.

Spánn er í efsta sæti riðilsins með 7 stig líkt og Ítalía en með betri markatölu. Albanía sem vann tvo fyrstu leiki sína er með sex stig. Makedónía er án stiga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×