Enski boltinn

Dramatík í lokin hjá Kára og félögum - sigur hjá Cardiff

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Einar Gunnarsson í leiknum á móti Ipswich í kvöld.
Aron Einar Gunnarsson í leiknum á móti Ipswich í kvöld. Vísir/Getty
Kári Árnason og félagar í Rotherham United gerðu 3-3 jafntefli við Fulham í ensku b-deildinni í kvöld en Fulham jafnaði metin á lokamínútu leiksins. Aron Einar Gunnarsson og félagar í Cardiff unnu á sama tíma 3-1 heimasigur á Ipswich Town.

Kári Árnason spilaði allan leikinn fyrir Rotherham United sem var nálægt sigri á Fulham. Dan Burn tryggði Fulham 3-3 jafntefli Þegar hann skoraði á 90. mínútu leiksins. Rotherham United átti möguleika á því að vinna sinn þriðja sigur í síðustu fjórum leikjum.

Rotherham United komst þrisvar yfir í leiknum þar á meðal með sjálfsmarki Búlgarans Nikolay Bodurov á 86. mínútu leiksins.  Alex Revell og Jonson Clarke-Harris höfðu áður komið Rotherham United í bæði 1-0 og 2-1. Rotherham United er nú í 14. sæti.

Aron Einar Gunnarsson spilaði allan tímann á miðjunni þegar Cardiff City vann 3-1 heimasigur á en velska liðið hefur nú unnið tvo fyrstu leikina undir stjórn nýja stjórans Russell Slade.

Daryl Murphy kom Ipswich í 1-0 á 29. mínútu en mörk frá Peter Whittingham,  Federico Macheda og Adam Le Fondre tryggðu Cardiff sigurinn og þar með 10. sætið í deildinni.

Jóhann Berg Guðmundsson var ekki með Charlton vegna meiðsla þegar liðið vann 2-1 heimsigur á Bolton en Charlton-liðið komst í 2-0 með mörkum frá George Tucudean og Johnnie Jackson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×