Handbolti

Dönsku stelpurnar upp í annað sætið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristina Kristiansen skoraði ekki bara fjögur mörk því hún varði líka skot frá Ungverjum þegar hún spilaði sem aukamaður og þurfti að fara í markið.
Kristina Kristiansen skoraði ekki bara fjögur mörk því hún varði líka skot frá Ungverjum þegar hún spilaði sem aukamaður og þurfti að fara í markið. Vísir/AFP
Danmörk vann þriggja marka sigur á heimakonum í Ungverjalandi, 23-20, þegar liðin mættust í kvöld i milliriðli eitt á Evrópumótinu í handbolta kvenna en mótið fer fram í Ungverjalandi og Króatíu.

Noregur er þegar búið að tryggja sér sigur í milliriðlinum en norska liðið (8 stig) hefur nú þriggja stiga forskot á danska liðið (5 mörk) í öðru sætinu þegar aðeins ein umferð er eftir.

Spánn og Ungverjaland eru með fjögur stig en Danmörk mætir Spáni í lokaumferðinni á meðan Ungverjarnir spila við Noreg. Noregur getur leyft sér að hvíla lykilmenn í þeim leik.

Dönsku stelpurnar töpuðu á móti Noregi en hafa unnið alla aðra leiki sína á mótinu. Liðið vann brons á HM í fyrra og tryggir sér sæti í undanúrslitunum með því að ná í stig á móti Spáni á miðvikudaginn.

Danska liðið komst í 11-6 á móti Ungverjum í fyrri hálfleiknum í kvöld en var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 11-9. Ungverska liðið skoraði fimm mörk í röð í kringum hálfleikinn og tókst að jafna metin í 11-11.

Danska liðið svaraði þá með 6-2 spretti og náði síðan mest sjö marka forskoti, 22-15, þegar tólf mínútur voru eftir af leiknum. Ungverska liðið gafst ekki upp og skoraði fimm af síðustu sex mörkum leiksins en sigur dönsku stelpnanna var aldrei í alvöru hættu.

Line Anna Ryborg Jörgensen var markahæst í danska liðinu með sex mörk úr átta skotum en Kristina Kristiansen skoraði fjögur mörk auk þess að gefa fimm stoðsendingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×