Sport

Dong vill sleppa Gunnari og fara beint í Maia

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kóreubúinn Dong Hyun Kim hefur lýst yfir áhuga á að berjast næst við Demian Maia en hann átti að keppa við Gunnar Nelson í nóvember.

Ekkert varð af þeim bardaga þar sem Gunnar meiddist. Dong fékk í staðinn bardaga gegn Tarec Saffiedine á UFC 207 og vann á klofnum dómaraúrskurði.

„Mér fannst hann vinna fyrstu lotuna en ég vann þá næstu. Pressan og fellur í þriðju lotunni kláruðu bardagann fyrir mig,“ sagði Dong eftir bardagann en hann var ekkert allt of sannfærandi í honum og ansi villtur.

„Ég vildi sýna meira og hafa bardagann skemmtilegri en Tarec var mjög sterkur upp við búrið og þetta tók á. Ég er samt ánægður með sigurinn.“

Dong fór upp um tvö sæti á styrkleikalista UFC, og er í sjöunda sæti, með sigrinum og vill nú komast enn ofar. Berjast við menn við toppinn.

„Ef UFC gefur mér tækifæri þá væri ég meira en til í að berjast við Maia,“ sagði Dong en hann tapaði fyrir Maia árið 2012 er hann þurfti að hætta eftir að hann fékk vöðvakrampa.

Gunnar barðist við Maia fyrir rúmu ári síðan og vann Maia yfirburðasigur í þrigga lotu bardaga.

Viðtalið við Dong má sjá hér að ofan.

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×