Innlent

Dómurum verði fjölgað við Hæstarétt

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Nefndin telur brýnt að frumvarpið nái fram að ganga.
Nefndin telur brýnt að frumvarpið nái fram að ganga. vísir/gva
Allsherjar- og menntamálanefnd gerir engar athugasemdir við frumvarp Ólafar Nordal innanríkisráðherra þess efnis að dómurum við Hæstarétt Íslands verði fjölgað tímabundið úr níu í tíu. Leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt og segir brýnt að frumvarpið nái fram að ganga. Gert er ráð fyrir að heimildin falli niður í árslok 2016.

Þetta kemur fram í áliti sem nefndin skilaði síðdegis í gær. Þar kemur fram að við umfjöllun um málið hafi komið fram að mikið álag væri á Hæstarétti sökum málafjölda auk þess sem mál væru þyngri í vinnslu en áður. Málum sem eiga rætur að rekja til hruns fjármálakerfisins og afleiðinga þess væri enn ekki lokið.

Nefndin bendir á ársskýrslu Hæstaréttar fyrir árið 2014 þar sem fram kemur að ný mál hafi aldrei verið fleiri. Þau hafi verið 111 talsins eða þrettán prósent fleiri en meðaltal áranna 2008-2013.

Þá kemur fram í álitinu að kærum í einkamálum hafi fjölgað verulega eða um 33 prósent fleiri en meðaltal áranna 2008-2013. Telur nefndin að í ljósi þessa sem og mikilvægis þess að málshraða sé haldið í viðunandi horfi sé brýnt að frumvarpið nái fram að ganga.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×