Innlent

Dómurinn staðfestur yfir Jónínu Ben

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Jónína Benediktsdóttir.
Jónína Benediktsdóttir. vísir/ernir
Hæstiréttur Íslands staðfesti í dag dóm Héraðsdóms Reykjavíkur yfir Jónínu Benediktsdóttur. Hún var í janúar dæmd í þrjátíu daga fangelsi fyrir ölvunarakstur og var svipt ökurétti ævilangt. Hún neitaði sök í málinu og kvaðst hafa drukkið áfengið eftir að hún lét af akstri bifreiðarinnar.

Jónína var ákærð fyrir að hafa hinn 18. júní 2013 ekið undir áhrifum áfengis og mældist vínandamagn í blóði 1,50 prómill. Við Reykjavíkurflugvöll ók hún á járngrind við enda bílastæðisins.

Í niðurstöðu héraðsdóms segir að framburður hennar um atvik málsins hafi ekki verið stöðugur að öllu leyti. Þannig hafi hún borið við yfirheyrslu hjá lögreglu að bifreiðin hefði rekist utan í járngrindina þegar hún ók inn á bílastæðið. Í kjölfarið hafi hún farið inn í flugstöðina, keypt þar áfengi og drukkið eitthvað af því þar inni. Við aðalmeðferð málsins sagði hún það hafa rifjast upp fyrir sér að hún hefði ekið á járngrindina eftir að hún kom út úr flugstöðinni og kannaðist ekki við að hafa neytt áfengis þar inni.

Dómnum þótti það því hafið yfir skynsamlegan vafa að Jónína hafi verið undir áhrifum áfengis þegar hún ók bifreiðinni út bifreiðastæði við Reykjavíkurflugvöll. Var hún því sakfelld fyrir þá háttsemi sem henni var gefin að sök í hákæru og háttsemin því rétt færði til refsiákvæða, að því að kemur fram í niðurstöðu héraðsdóms. Þá segir að samkvæmt sakavottorði sé ölvunarakstursbrot hennar ítrekað öðru sinni.

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að dómur héraðsdóms yrði óraskaður og er henni gert að greiða áfrýjunarkostnað málsins, 529.193 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, 502 þúsund krónur.


Tengdar fréttir

Jónína Ben dæmd í 30 daga fangelsi

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi í morgun Jónínu Benediktsdóttur í 30 daga fangelsi fyrir ölvunarakstur og var hún svipt ökurétti ævilangt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×