Erlent

Dómsmálin elta Trump í Hvíta húsið

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Donalds Trump bíða 75 dómsmál sem tengjast ýmist honum beint eða fyrirtækjum í hans eigu.
Donalds Trump bíða 75 dómsmál sem tengjast ýmist honum beint eða fyrirtækjum í hans eigu. Nordicphotos/AFP
Innan fárra vikna þarf Donald Trump, nýkjörinn forseti Bandaríkjanna, að mæta til réttarhalda í Kaliforníu vegna Trump-háskólans svonefnda, sem starfaði á árunum 2005 til 2010.

Þetta var þó í raun enginn háskóli heldur var nemendum þar boðið upp á námskeið þar sem þeir voru fræddir um leiðir til að selja fasteignir, græða peninga og fjárfesta.

Þrjú dómsmál eru nú í gangi vegna skólarekstursins.

Alls bíða Trumps 75 dómsmál, sem búast má við að verði mörg hver í fréttum eftir að hann tekur við embættinu þann 20. janúar næstkomandi. Sum þeirra snúast um kynferðisbrot sem hann er sakaður um gegn mörgum konum.

Trump hefur reynt að gera lítið úr þessum málum, sagt að dómsmál af ýmsu tagi hafi jafnan fylgt fyrirtækjarekstri þeim sem hann hefur staðið í.

Hann vinni flest þessi mál, hvort eð er. Alls munu þau vera rúmlega fjögur þúsund, dómsmálin sem tengst hafa honum eða fjármálum hans.

Fyrsta málið gegn honum var höfðað árið 1973 þegar hann var sakaður um að neita að leigja þeldökku fólki íbúðir sínar, sem hann hafði til útleigu í New York. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×