Enski boltinn

Domenech: Sé ekki muninn á Tottenham og United

Anton Ingi Leifsson skrifar
Raymond Domenech liggur ekki á skoðunum sínum.
Raymond Domenech liggur ekki á skoðunum sínum. vísir/getty
Raymond Domenech, fyrrum þjálfari franska landsliðsins í knattspyrnu, hefur sagt Hugo Lloris, markverði Tottenham, að yfirgefa félagið og takast á við stærri verkefni.

Domenech, sem stýrði Frökkum í úrslitaleikinn á HM 2006, hefur þó sagt að Lloris eigi ekki að fara til Manchester United. Hann hefur verið orðaður við United fari svo að David de Gea fari til Real Madrid, en Domenech telur United ekki eitt af stóru félögunum lengur.

„Ég get ekki tekið ákvörðun fyrir hann, en í mínum huga á að hann spila fyrir Chelsea, Arsenal eða Manchester City til þess að spila í Evrópukeppni," sagði Domenech í samtali við franska fjölmiðla.

„Tottenham er stórt félag - en ekki það stærsta. Manchester United tryggði sig í Meistaradeildina, en ég sé ekki muninn á United og Tottenham."

Ummælin teljast afar sérstök hjá Frakkanum, en hann hefur aldrei legið á skoðunum sínum. Hann segir að landi sinn eigi að fara til stærra liðs, en þó ekki United.

„Fyrir mér er þetta Chelsea, Arsenal eða Manchester City af því ég tel að Manchester United sé ekki ennþá stórklúbbur á Englandi."

„Ég held að Arsenal verði alltaf stór klúbbur, Chelsea einnig, City er að verða stórklúbbur. Ég held að United og Tottenham séu á svipuðum stað með öðrum liðum svo það er enginn munur. Þau eru ekki eitt af stóru félögunum."

„Fyrir mér er hann frábær markvörður sem á að vera í einu af bestu liðunum í Englandi, Frakklandi, Ítalíu eða í Þýskalandi," sagði hinn athyglisverði, Raymond Domenech, að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×