Innlent

Dómari í umfangsmiklu skattsvikamáli ekki vanhæfur

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Aðalmeðferð málsins var restað þar til úrskurður Hæstaréttar lægi fyrir.
Aðalmeðferð málsins var restað þar til úrskurður Hæstaréttar lægi fyrir. Vísir/Ernir
Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð héraðsdóms þess efnis að dómari í umfangsmiklu skattsvikamáli teljist ekki vanhæfur til þess að dæma í málinu.

Verjandi eins sakborningsins taldi að dómarinn hefði brotið gegn lögum með því að heimila lögreglustjóra að hlusta á og hljóðrita síma skjólstæðings síns. Fyrr í vikunni var farið fram á að einn þriggja dómara í málinu víki sæti. Var aðalmeðferð málsins frestað af þeim sökum þangað til úrskurður Hæstaréttar lægi fyrir.

Maðurinn sem um ræðir gegnir lykilhlutverki í málinu en hann var starfsmaður ríkisskattstjóra þegar meint brot áttu sér stað. Alls eru átta einstaklingar grunaðir um stórfelld skattalagabrot með því að hafa svikið allt að 300 milljónir króna af hinu opinbera.

Í úrskurði héraðsdóms segir að dómari sé aðeins vanhæfur samkvæmt lögum hafi hann gætt réttar sakbornings eða brotaþola í dómsmáli. Þannig verði dómari ekki vanhæfur til að leysa efnislega úr máli hafi hann á rannsóknarstigi úrskurðað um símhlustun.

Settu á fót fyrirtæki með enga raunverulega starfsemi

Málið kom upp í september árið 2010. Svikin eru sögð hafa farið þannig fram að fólkið setti á fót sýndarfyrirtæki í þeim eina tilgangi að svíkja fé út úr skattkerfinu.

Fyrirtækin höfðu enga raunverulega starfsemi en fengu í krafti falsaðra gagna og aðgangs að fyrrnefndum starfsmanni Ríkisskattstjóra stórfé vegna byggingar þriggja húsa sem aldrei voru reist.

Fyrirtæki gátu þá fengið sérstaka heimild til endurgreiðslu á innskatti á meðan uppbyggingu stóð. Fólkinu tókst þannig að svíkja rúmlega 270 milljónir króna út úr virðisaukaskattskerfinu.


Tengdar fréttir

Dráttur á rannsókn getur létt refsinguna

Maður sem beðið hefur í fjögur ár eftir að rannsókn á fjársvikamáli sem hann tengist ljúki segist óvinnufær vegna biðarinnar. Enn er beðið og málið ekki komið til saksóknara. Eigur mannsins og konu hans hafa verið frystar frá árinu 2010.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×