Innlent

Dómarar gagnrýna lögreglu vegna Kragh málsins

Frá dómsuppkvaðningu í dag.
Frá dómsuppkvaðningu í dag.

Dómarar Héraðsdóms Reykjavíkur sem dæmdu í máli Þorsteins Kragh og Jacobs Hinte, gagnrýna vinnubrögð lögreglunnar við rannsókn málsins þar sem Þorsteini Kragh var ítrekað meinað að komast í mikinn fjölda skjala sem vörðuðu rannsókn málsins.

Þorsteinn sat þá í gæsluvarðhaldi og óskaði eftir að nálgast rannsóknarskjölin, en var ítrekað meinað um það eða fékk þau of seint í hendurnar. Þorsteinn kærði málið á sínum tíma og krafðist frávísunar vegna þessa. Ekki var fallist á það og málinu framhaldið.

Í gagnrýni á vinnbrögð lögreglunnar segir í dómsskjali: „Viðhlítandi skýring hefur ekki komið fram hverju þetta sætir. Ber að átelja þessi vinnubrögð lögreglu [...]."


Tengdar fréttir

Þorsteinn Kragh í níu ára fangelsi

Þorsteinn Kragh var í dag dæmdur í níu ára fangelsi fyrir að smygla til landsins tæpum 200 kílóum af hassi og hálfu öðru kílói af kókaíni. Jacob van Hinte, hollenskur samstarfsmaður Þorsteins var dæmdur í sjö og hálfs árs fangelsi en dómur var kveðinn upp í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur klukkan ellefu í morgun. Þorsteinn mætti ekki við dómsuppsögu málsins.

Frávísunarkröfu Þorsteins Kragh hafnað

Kröfu Þorsteins Kragh um frávísun í máli hans var hafnað af dómara Héraðsdóms Reykjavíkur í dag. Þorsteinn er grunaður um aðild að stórfelldum innflutningi á fíkniefnum en Hollendingurinn Jacob Van Hinte var handtekinn um borð í Norrænu með um 190 kíló af hassi, eitt og hálft kíló af maríjúana og eitt kíló af kókaíni í bíl sínum. Þorsteinn var handtekinn um mánuði síðar og hefur setið í gæsluvarðhaldi í um hálft ár.

Aðalmeðferð í máli Þorsteins Kragh í dag

Aðalmeðferð er í dag í máli Þorsteins Kragh og Jakobs Van Hinte í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þeir eru sakaðir um að standa að einu stærsta smygli á eiturlyfjum til landsins í sögunni en Van Hinte var stöðvaður í ferjunni Norrænu í júní 2008 með um 190 kíló af hassi, eitt kíló af kókaíni og eitt og hálft kíló af maríjúana, vandlega falið í bíl sínum.

Fréttaskýring: Hver lætur eftirlýstan mann flytja inn 200 kg af fíkniefnum?

Ákæruvaldið fer fram á 10 ára fangelsisdóm hið minnsta yfir Þorsteini Kragh og Jacobi Van Hinte fyrir að skipuleggja og flytja inn tæplega 200 kíló af kannabisefnum og tæpt 1 ½ kíló af kókaíni. Verjandi Þorsteins fer fram á að hann verði sýknaður en verjandi hollendingsins telur hæfilega refsingu vera 6-7 ár hið mesta. Hann segir ennfremur að 10 ára fangelsisdómur yfir rúmlega sjötugum manni sé í raun lífstíðardómur. Vísir fylgdist með aðalmeðferð í málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.

Útskýrir milljónir með skattsvikum og fölsuðum miðum

Í morgun fór fram aðalmeðferð í máli Þorsteins Kragh og hollendingsins Jacob Van Hinte sem ákærðir eru fyrir fíkniefnainnflutning með Norrænu. Í húsbíl sem Jacob kom á hingað til lands fundust um 200 kg af kannabisefnum auk 1 ½ kg af kókaíni. Hollendingurinn bendlaði Þorstein við málið í upphafi en eftir að þeir hittust á Litla-Hrauni dró hann framburð sinn til baka og segir Þorstein ekkert hafa komið nálægt málinu. Fram kom að tæpar 80 milljónir voru inni á bankareikningum Þorsteins sem hann sagði tilkomnar vegna skota undan skatti og í tengslum við miða sem hann hafi falsað á tónleika sem hann hafi haldið í gegnum tíðina.

Átti að fá 40 þúsund evrur fyrir smyglið

Hollendingurinn Jacob Van Hinte kvaðst fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gær hafa átt að fá 40.000 evrur fyrir að koma húsbíl, hlöðnum fíkniefnum, hingað til lands. Hann er ákærður, ásamt Þorsteini Kragh, fyrir að hafa ætlað að smygla nær 200 kílóum af kannabisefnum og einu og hálfu kílói af kókaíni til landsins í húsbílnum.

Kragh fái tíu ára dóm hið minnsta

Ríkissaksóknari fer fram á að Þorsteinn Kragh og Jakob Van Hinte verði dæmdir í tíu ára fangelsi að lágmarki fyrir aðild sína að stórfelldum fíkniefnainnflutningi með Norrænu í sumar. Aðalmeðferð í málinu var fram haldið í morgun í Héraðsdómi Reykjavíkur. Sækjandi byggir kröfu sína um svo þunga dóma á því mikla magni sem mennirnir eru ákærðir fyrir að hafa reynt að smygla til landsins en alls var um að ræða tæp 200 kíló af fíkniefnum. Í máli sækjanda í morgun kom meðal annars fram að smyglið hafi verið gríðarlega vel skipulagt en til dæmis voru efnin vel falin í sérútbúnum húsbíl.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×