Innlent

Djúpu lægðirnar koma eins og á færibandi fram á gamlársdag

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
„Kannski kemur hið fullkomna flugeldaveður á síðustu klukkustund ársins eins og eftir pöntun?“
„Kannski kemur hið fullkomna flugeldaveður á síðustu klukkustund ársins eins og eftir pöntun?“ vísir/vilhelm
Búist er við stormi um land allt í dag og á morgun, sem og næstu daga. Einnig er búist við talsverðri rigningu með asahláku sunnan og vestantil.

Gert er ráð fyrir að í dag gangi á með sunnanstormi eða –roki og talsverðri rigningu sunnan- og vestanlands. Hlýtt loft muni hins vegar blása yfir landinu og því má búast við að hiti fari sums staðar yfir tíu stig en þar sem snjór liggur enn á jörðu er hætt við asahláku. Veðurfræðingur segir á vef Veðurstofunnar að hjálpast eigi að við að greiða leið yfirborðsvatns að niðurföllum svo ekki skapist óþarfa vatnselgur.

Snýst svo í suðvestanátt með skúrum eða éljum í kvöld og nótt og kólnar talsvert. Morgundagurinn verður sömuleiðis stormasamur og svalur með éljagangi, einkum á vestanverðu landinu. Viðbúið er að færð spillist þá fyrir norðan og vestan.

Þá er búist við að áfram verði miklar sviptingar í veðri á næstunni og djúpu lægðirnar koma eins og á færibandi fram á gamlársdag, segir veðurfræðingur.

„Þrátt fyrir lægðaganginn er útlitið gott fyrir gamlárskvöld; vaxandi hæðarhryggur og tilheyrandi léttviðri, ef spár ganga eftir. Kannski kemur hið fullkomna flugeldaveður á síðustu klukkustund ársins eins og eftir pöntun?“ segir á vef Veðurstofunnar.

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×