Lífið

Djúpstæð og varanleg vinátta

Magnús Guðmundsson skrifar
Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson bundust miklum vinaböndum við tökur á Hrútum norður í Bárðardal.
Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson bundust miklum vinaböndum við tökur á Hrútum norður í Bárðardal. Visir/Stefán
Leikararnir og náttúrubörnin Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson fara á kostum í kvikmyndinni Hrútar. Þar eru þeir félagar í hlutverki bræðra sem talast ekki við en búa hvor í sínu húsinu á sama bænum í Bárðardal, stunda sauðfjárrækt af ástríðu og lifa einir með sjálfum sér.

Báðir eiga þeir Siggi og Teddi, eins og þeir eru oftast kallaðir, farsælan feril að baki í leiklistinni og eru flestum landsmönnum að góðu kunnir. En þeir eiga sér líka rætur í dreifbýlinu og hjarta þeirra stendur nærri náttúrunni.

Náttúrubörn í hjarta

„Ég var svo lánsamur að fá að vera í sveit sem strákur í tíu ár,“ segir Siggi og það örlar á fortíðarþrá í röddinni. „Þarna fékk maður beintengingu við náttúruna og skepnurnar, þannig að ég hafði alveg tekið á sauðkindinni áður en ég skellti mér í tökur á Hrútum. Alla tíð síðan hef ég verið mikið fyrir sveitina og náttúruna, við hjónin erum mikið fyrir að stússast í garðinum og hef ég afskaplega gaman af dýrum,“ bætir Siggi við sem minnir líka á að hann þurfi að skreppa eftir hádegið með tíkina sína til dýralæknis.

„Ég fékk nú bara eitt sumar í sveit en verandi frá Siglufirði þá var maður kominn á síldarplanið sex ára með mömmu og í vinnu í síldinni sjö ára,“ segir Teddi og brosir. Það er sterkur í honum Siglfirðingurinn. „Við Guðrún mín og dætur okkar eigum tvö hús á Siglufirði og það er okkar athvarf. Þar erum við búin að rækta upp og stórfjölskyldan ver miklum tíma þarna. Svo erum við Siggi líka báðir í veiðinni og stutt í náttúrubörnin í okkur. Enda miklir náttúruverndarsinnar báðir tveir.“

Cannes, Hrútar, Siggi Sigurjóns
Teddi og Tom Jones í Cannes

Þeir félagar eru sammála um að Cannes hafi verið mikið ævintýri. „Ég hafði reyndar komið áður á Cannes með Eldfjall Rúnars Rúnarssonar,“ segir Teddi. En Siggi glottir við og bendir á að Teddi hafi nú komið þarna tvisvar áður og að hann þurfi nú frekar að segja söguna af því. „Já alveg rétt, ég kom nefnilega til Cannes þegar ég var sautján ára og þá með karlakórnum Vísi frá Siglufirði. Það var sko ævintýri. Við vorum með kórstjóra sem var búinn að poppa aðeins upp dagskrána hjá okkur og við sendum frá okkur plötu. Það reyndist vera mest selda platan á Íslandi það árið – geri aðrir karlakórar betur. 

Ég var langyngstur í hópnum en það sem bar helst til tíðinda í ferðalaginu var að Tom Jones var þá aðalstjarnan á svæðinu. Við komum að þar sem hópur blaðaljósmyndara var að mynda stjörnuna og ég ákvað að sjálfsögðu að skella mér bara inn í hópinn með gömlu kassamyndavélina framan á mér.

Tom Jones kom auga á mig og sá vel að þarna var ekki blaðaljósmyndari á ferð. En í stað þess að láta vísa mér í burtu ýtti hann öllum ljósmyndurunum frá og stillti sér upp fyrir mig einan. Ég smellti af og tók svo upp miða af tónleikunum okkar og fékk eiginhandaráritun. Miðann á ég en það var reyndar engin filma í vélinni. Það er í góðu lagi, þetta er greypt í minnið.“

Guðrún Sveinbjörnsdóttir Hrútar
Einstök vinátta

Siggi skemmtir sér vel yfir sögunni hjá Tedda. „Þetta var frábær tími í Cannes en samt er það nú ekki síður tíminn í Bárðardal sem reyndist ógleymanlegur,“ segir Siggi og bendir á að tökutíminn hafi verið afar sérstakur. „Þeir félagar Grímur og Grímar náðu að mynda alveg einstaka stemningu. Það var haldið vel utan um hópinn og okkur leið vel í Bárðardalnum.“

Teddi tekur undir að það hafi verið gott að dvelja í Bárðardalnum. „Ég var í færri tökum en Siggi en dvaldi engu að síður allan tímann í dalnum. Þarna var gott að vera og sambúðin hjá okkur félögunum góð.“ Siggi tekur undir það. „Við nýtum tímann á kvöldin oft vel til þess að vinna og undirbúa okkur fyrir næsta tökudag og ef ég var einn í tökum, kannski snemma dags, þá var Teddi búinn að hafa til handa mér morgunverð svo þetta var ljómandi góð sambúð. Við vorum vinir fyrir Hrúta en vinaböndin sem við mynduðum á þessum tíma eru varanleg og djúpstæð.“

Teddi segir að það hafi líka verið einstök reynsla að koma nánast beint frá rauða dreglinum á Cannes og á frumsýningu myndarinnar að Laugum í Reykjadal. „Þvílíkar móttökur! Í stað rauða dregilsins var kominn gæruskinnsdregill og viðtökurnar við myndinni voru dásamlegar. Við vorum leystir út með þvílíkum gjafakörfum fylltum með dásamlegum afurðum bæjanna í Bárðardal. Fólkið í Bárðardal á svo mikið í þessari mynd og á miklar þakkir skildar. Þetta er gott fólk.“

Vinnan mikilvæg

Þeir félagar eru sammála um það að vinnuumhverfið skipti leikara miklu máli. Þeir hafa báðir verið lengi í þessum bransa en það er athyglisvert hvernig þeir hafa báðir í auknum mæli verið að leika í kvikmyndum hin síðari ár. Siggi segir að þetta hafi nú bara einhvern veginn þróast svona. „Ég hef verið lánsamur með minn feril og fengið að takast á við skemmtileg verkefni. Með aldrinum fækkar hlutverkunum í leikhúsinu en það virðist vera þörf fyrir svona skarfa eins og okkur í bíói og það er hið besta mál. Það er nefnilega hætt við því að leikarar á okkar aldri fari að ryðga ef verkefnin láta bíða eftir sér.“ 

Teddi tekur undir þetta og segir að það sé gaman að takast á við mörg og ólík verkefni. Á síðasta ári var Tedda mjög svo óvænt sagt upp samningi við Borgarleikhúsið en svo ráðinn að nýju skömmu síðar. Teddi er ekki mikið fyrir að dvelja við þetta. „Nei, ég hef bara haldið áfram. Leikarar þurfa að vísu á sínu sjálfstrausti að halda og svona lagað er ekki gott fyrir sjálfstraustið. Ég hef því lagt þetta að baki og nýt þess að vinna og það er nóg að gera. Ég lifi líka á því að hafa verið útnefndur Bæjarlistamaður Kópavogs, sem var mikil heiður, og ég hlakka mjög til næsta leikárs í Borgarleikhúsinu.“

Hrútar
Skegg og bíómynd

Það er sannarlega nóg fram undan hjá þeim báðum. Siggi er reyndar farinn að hlakka mest til þess að losna við skeggið sem hann hefur þurft að halda í allan vetur. Teddi kannast við þá tilfinningu. „Um leið og ég mátti raka mig fór ég og tók þetta allt á einu bretti. Krúnurakaði mig líka,“ segir Teddi og skælbrosir við tilhugsunina. „Já, það fer að koma að þessu hjá mér. Þetta verður reyndar alveg fjölskylduviðburður. Barnabörnin ætla að koma og fá að taka þátt í þessu,“ segir Siggi en þeir félagar eru báðir margfaldir afar.

„Ég er líka að vinna að minni eigin kvikmynd. Er byrjaður að skrifa handrit og allt að gerast. Þar verður sko pottþétt hlutverk fyrir Tedda. Ekki spurning.“ Teddi brosir við tilhugsunina en minnir nú á að þeir þurfi nú líka að hafa tíma til þess að veiða sem minnir Sigga á eitt afar mikilvægt: „Já, ég ætla að hnýta flugur úr skegginu. Þarf að klára það áður en við förum að veiða í Bárðardal.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×