Erlent

Djörf kvikmynd Tómasar Lemarquis vann Gullbjörninn eftir að hafa gengið fram af áhorfendum

Birgir Olgeirsson skrifar
Philippe Avril, Bianca Oana, Adina Pintilie og Tomas Lemarquis stilla sér upp eftir að myndin Touch me Not hafði unnið til Gullbjarnarins á kvikmyndahátíðinni í Berlín.
Philippe Avril, Bianca Oana, Adina Pintilie og Tomas Lemarquis stilla sér upp eftir að myndin Touch me Not hafði unnið til Gullbjarnarins á kvikmyndahátíðinni í Berlín. Vísir/Getty
Kvikmynd rúmenska leikstjórans Adina Pintilie, Touch Me Not, hlaut Gullbjörninn sem besta myndin á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín í gær. Myndin er sögð hafa gengið fram af einhverjum áhorfendum á hátíðinni fyrir djörf atriði en nánd og kynlíf er umfjöllunarefni hennar.

Annar af aðalleikurum myndarinnar er hinn íslenski leikarinn Tómas Lemarquis, en á vef Ríkisútvarpsins kemur fram að þetta sé í fyrsta skipti sem kvikmynd, sem skartar Íslendingi í aðalhlutverki, vinnur Gullbjörninn.

Á vef Reuters er haft eftir leikstjóranum að hún átti alls ekki von á því að vinna til verðlauna fyrir þessa kvikmynd sem hún segir afmá línurnar á milli raunveruleika og skáldskapar.

Aðalpersónur myndarinnar leita eftir nánd en óttast hana á sama tíma. Pintilie segir myndina þess vegna geta verið óþægilega fyrir marga áhorfendur. Áhorfendir geti reynst erfitt en á sama tíma séu áhorfendurnir hvattir til að leita inn á við og kanna sitt innra eðli.

Wes Anderson hlaut Silfurbjörninn sem besti leikstjórinn fyrir teiknimynd sína Isle of Dogs sem fjallar um íbúa japanskrar borgar sem flytja hunda sína á eyju sem notuð er sem sorphaugur vegna hundaveiki. 

Bill Murray er einn af leikurunum sem talsetur myndina en hann tók við verðlaununum fyrir hönd Wes Anderson. Hann sagðist ekki hafa átt von á því að fara til vinnu sem hundur og koma heim með björn. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×