Sport

Djokovic vann opna ástralska mótið í fimmta sinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Novak Djokovic.
Novak Djokovic. Vísir/Getty
Serbinn Novak Djokovic tryggði sér í dag sigur á opna ástralska mótinu í tennis eftir sannfærandi sigur á Bretanum Andy Murray í úrslitaleik í Melbourne.

Þetta er í fimmta sinn sem Djokovic vinnur þetta fyrsta risamót ársins en hann vann mótið einnig 2008, 2011, 2012 og 2013. Kappinn var því að fagna sigri í fjórða sinn á fimm árum í Ástralíu.

Enginn hefur unnið þetta mót oftar en Novak Djokovic frá því að mótið var opnað árið 1969. Andre Agassi og Roger Federer höfðu fyrir þetta mót unnið fjórum sinnum eins og Serbinn.

Novak Djokovic vann úrslitaleikinn í dag 7-6 (7-5) 6-7 (4-7) 6-3 6-0 og líkt í undanúrslitaleiknum á móti Stan Wawrinka þá keyrði hann yfir andstæðinginn sinn í lokasettinu.

Djokovic hefur nú unnið átta risamót á ferlinum og er því hvergi betri en í í byrjun árs. Djokovic hefur einnig unnið Wimbledon-mótið tvisvar sinnum (2011 og 2014) og opna bandaríska mótið einu sinni (2011).

Þá voru því góðkunningjar sem unnu einliðaleikinn á opna ástralska mótinu í ár því áður hafði hin bandaríska Serena Williams fagnað sigri í sjötta sinn á þessu árlega risamóti.


Tengdar fréttir

Serena Williams og Sharapova mætast í úrslitaleiknum

Það verður einvígi á milli Bandaríkjanna og Rússlands í úrslitaleik í einliðaleik kvenna á opna ástralska mótinu í tennis en þær Serena Williams og Maria Sharapova tryggðu sér sæti í úrslitaleiknum í nótt.

Nítjándi sigur Williams á risamóti

Bandaríska tenniskonan Serena Williams tryggði sér nú rétt í þessu sigur á Opna ástralska meistaramótinu með því að vinna hina rússnesku Mariu Sharapovu, 6-3, 7-6, (7-5).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×