Lífið

Djammspáin fyrir helgina er klár

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Sigríður Klingenberg ráðleggur fólki í makaleit að vera ekki of ölvað.
Sigríður Klingenberg ráðleggur fólki í makaleit að vera ekki of ölvað. vísir/gva
„Aðaldjammið verður eins og svo oft áður í Vestmannaeyjum og það er alveg sama þótt það rigni eldi og brennisteini, það er alltaf skemmtilegast í Eyjum og ástin býr í Eyjum,“ segir Sigríður Klingenberg en Fréttablaðið vildi forvitnast um hvar djamm- og skemmtispáin væri best fyrir verslunarmannahelgina og sló á þráðinn til Siggu Kling.

Sigga fer fögrum orðum um Vestmannaeyjar og segir að þeir sem einhleypir séu eigi góða möguleika á að finna maka sinn á Þjóðhátíð. „Það er fullt af fólki sem hittir makann sinn í Eyjum, fólk þarf bara að passa sig að vera ekki of ölvað svo það geti skoðað vel í kringum sig,“ segir Sigga. Hún vill meina að orkan sé einnig svo góð í Eyjum og að það séu töfrar sem sem myndast í dalnum. „Þetta umhverfi er svo fallegt og veðrið skiptir engu máli. Ég myndi samt segja að það séu mestu líkurnar á að hitta makann inni í dal, í brekkunni eða á röltinu í dalnum.

Í öðru sæti er Mýrarboltahátíðin á Ísafirði, þar verður góð stemning en þó öðruvísi en í Eyjum. „Það er mikla karlmennsku að finna á Ísafirði, það verður mikið um skítuga karlmenn en þeir eru samt svo dreifðir þarna. Þeir eru líka að fara keppa, þeir eru ekki beint að leita sér að konu, heldur frekar að keppa,“ segir Sigga um ástina á Ísafirði. Hún segir þó að það sé ekki hægt að finna skemmtilegra fólk en á Vestfjörðum en að konur þurfi þó að hafa mjög mikið fyrir því að ná sér í alvöru Vestfirðing.

„Stelpan má bara ekki vera í galadressinu sínu, hún á helst að vera í lopapeysu og gallabuxum og leyfa freknunum að sjást.“ Sigga vill einnig meina að Mýrarboltinn sé frábær uppfinning og fagnar þessari rísandi hátíð.



Dalurinn heillar marga, er ástin þín þar?Mynd/Einkasafn
Fyrir utan Mýrarboltann og Þjóðhátíð segir hún aðrar hátíðir einnig líta vel út. „Aðrar hátíðir líta vel út, það er gott fyrir þá sem ætla að skilja lifrina eftir heima að fara annað, það er að segja þeir sem vilja ekki lengur vera þekktir fyrir djammið.“

Sigga ráðleggur þó fólki að vera ekki að drekka Tópas ef manneskjan er í makaleit. „Ef þú vilt muna eitthvað þá skaltu halda þig frá Tópas.“

Ef allt klikkar um verslunarmannahelgina er Sigga með góða lausn. „Ef makaleitin gengur illa þá mæli ég með að fólk fari á Fiskidaginn á Dalvík, það er mikil rómantík þar. Ef þú kemur heim með öngulinn í rassinum þá er Fiskidagurinn handan við hornið, engar áhyggjur.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×