Lífið

Disney og Sony taka upp í Hofi

Adda Soffía Ingvarsdóttir skrifar
Þorvaldur og Greta Salóme tóku upp tónlist fyrir Disney á sunnudag.
Þorvaldur og Greta Salóme tóku upp tónlist fyrir Disney á sunnudag.
„Þegar ég fór að vinna fyrir MAk, Menningarfélag Akureyrar í Hofi sá ég að Hofið er ekki bara tónleika- og ráðstefnuhús heldur líka risastórt hljóðver og að hér væri staðurinn til að taka upp kvikmyndatónlist,“ segir Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson, sviðsstjóri tónlistar í Hofi á Akureyri. Á sunnudag breyttist Hof í tónlistarstúdíó á heimsmælikvarða þegar Sinfóníuhljómsveit Norðurlands, eða The Arctic Cinematic Orchestra, tók upp tónlist fyrir Disney.

„Þegar ég fór að leita að verkefnum kom strax upp Disney-verkefnið hennar Gretu Salóme. Akureyringurinn Atli Örvarsson, sem hefur meðal annars unnið með Hans Zimmer, og er eitt af stóru nöfnunum í kvikmyndatónlistinni í USA, er að gera tónlist í mynd fyrir Sony. Sú tónlist verður tekin upp hér í Hofi eftir tvær vikur,“ segir Þorvaldur stoltur.

Hann segir upptökurnar hafa gengið eins og í sögu og aðstaðan hafi verið til fyrirmyndar og Sinfóníuhljómsveit Norðurlands ótrúlega þétt. Aðspurður hvort tækifæri sem þetta opni ekki á fleiri möguleika í kvikmyndaheiminum játar hann því. „Fyrst þetta byrjaði svona vel þá er maður vongóður. Hof er í hjarta bæjarins þannig að þeir sem kæmu hingað að vinna væru með alla þjónustu í þriggja mínútna göngufæri, það er tromp í hendi við að laða að verkefni fyrir ACO.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×