Enski boltinn

Diouf heldur áfram að drulla yfir Gerrard: Hann gerði aldrei neitt fyrir England

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ekki vinir,
Ekki vinir,
El Hadji Diouf, fyrrverandi landsliðsmaður Senegal í fótbolta, segist ekki vera vondur maður þrátt fyrir öll fíflalætin sem hann hefur tekið upp á í gegnum tíðina en hann ræðir stuttlega ferilinn í áhugaverðu viðtali við BBC.

Diouf er gjörsamlega elskaður í Senegal en hann var hluti af frægu landsliði Senegal sem sló í gegn á HM 2002. Hvert sem hann fer hópast krakkar að honum og trúa hreinlega ekki eigin augum. Hann er algjört goð.

Á Englandi er hans meira minnst sem vandræðagemsa sem hrækti á mótherja sína og lét eins og fífl. Hann hefur nú lagt skóna á hilluna og segir sína sögu.

„Ég er ljón sem kann ekki að tapa og það er ekkert að því að vera tapsár. Ég er mikill karakter og ég vil að fólk virði mig,“ segir Diouf í viðtalinu en hvað með öll atvikin þegar hann hrækti á menn?

„Kannski voru þeir að segja eitthvað við mig sem mér líkaði ekki eða ég vildi ekki heyra. Ég hrækti á menn. Ég borgaði fyrir mig en nú er ég hættur.“

Diouf og Steven Gerrard, fyrrverandi fyrirliði Liverpool, hafa átt í deilum í gegnum fjölmiðla en Senegalanum finnst ekkert til Gerrard koma. Hann hefur kallað Gerrard rasista og sagst ekki bera virðingu fyrir honum.

„Gerrard truflar mig ekkert. Hann er sterkur karakter og ég er sterkur karakter,“ segir Diouf áður en hann heldur svo áfram að urða yfir Liverpool-hetjuna.

„Stevie G var góður leikmaður. Fólk elskar hann í Liverpool en hann gerði aldrei neitt fyrir England. Ég er herra El Hadji Diouf, herra Senegal. Hann er bara herra Liverpool og Senegal er stærra en Liverpool og hann þarf að vita það,“ segir El Hadji Diouf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×