Enski boltinn

Diego Costa þurfti að fara til Conte með skottið á milli lappanna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Diego Costa.
Diego Costa. Vísir/Getty
Diego Costa, framherji Chelsea, hefur viðurkennt það opinberlega að hafa reynt að komast frá Chelsea síðasta sumar.

Mikið var skrifað um hugsanlega brottför Diego Costa frá Chelsea í janúar og voru lið í Kína meðal annars nefnd í fréttum ensku fjölmiðlanna. Ekkert varð af því. Nokkrum mánuðum fyrr var spænski framherjinn hinsvegar að reyna að losna frá Stamford Bridge.

Diego Costa vildi komast aftur til Atletico Madrid á Spáni eftir mjög erfitt 2015-16 tímabil. Hann byrjaði því ekki vel samstarfið sitt með Antonio Conte með því að vilja fara frá Chelsea um leið og ítalski stjórinn mætti á Brúna.

„Ég ber inn í mér mjög sterka tilfinningu til Atletico-liðsins enda upplifði ég besta tíma ferilsins hjá félaginu.  El Cholo [Diego Simeone] veit það best að það var ekki algjörlega ómögulegt fyrir mig að koma aftur,“ sagði Diego Costa í viðtali við El Larguero.

Chelsea og Atletico Madrid voru í viðræðum en fljótlega kom í ljós að þau myndu ekki ná saman um kaupverð.

„Samband mitt og Conte fór því ekki vel af stað því þegar hann kom þá sagði ég honum að ég vildi komast til Atletico. Atletico þurfti að bíða eftir mér en þeir gerðu það ekki,“ sagði Costa.

„Ég gerði allt sem í mínu valdi stóð til að komast aftur til Atletico. Þegar Atletico gat ekki beðið eftir mér þá þurfti ég að fara til Conte með skottið á milli lappanna,“ sagði Diego Costa.

Hvorki Chelsea né Diego Costa gráta það í dag enda hefur hann skorað 17 mörk í 26 leikjum í ensku úrvalsdeildinni á þessu tímabili og Chelsea er með tíu stiga forskot á toppnum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×