Lífið

DiCaprio talaði um loftslagsmálin í þakkarræðunni

Atli Ísleifsson skrifar
Leonardo og Óskar.
Leonardo og Óskar. Vísir/AFP
Bandaríski leikarinn Leonardo DiCaprio talaði um loftslagsmálin í þakkarræðu sinni á Óskarsverðlaunahátíðinni sem fram fór í nótt.

DiCaprio hlaut verðlaun fyrir besta karlleikari í aðalhlutverki fyrir hlutverk sitt í The Revenant. Þetta var í fyrsta sinn sem DiCaprio hlaut verðlaunin eftirsóttu en hann hafi fjórum sinnum áður verið tilnefndur til Óskarsverðlauna.

Gestir í salnum risu úr sætum sínum þegar leikkonan Julianne Moore tilkynnti að DiCaprio hafi hlotið verðlaunin. DiCaprio byrjaði á því að þakka aðstandendum The Revenant, sér í lagi mótleikara sínum, Tom Hardy, fyrir samvinnuna og vináttu, og leikstjóranum Alejandro Inarritu.

DiCaprio sagði hættuna af loftslagsbreytingum raunverulega og mestu ógnina sem mannkyn stendur frammi fyrir. Nauðsynlegt væri að vinna saman að lausn og hætta frestun ákvarðana. Hann hvatti áhorfendur til að styðja við baki á leiðtogum sem tala ekki máli mestu mengunarvalda og stórfyrirtækja heims. „Tökum þessari plánetu ekki sem sjálfsögðum hlut. Ég tek ekki þessum verðlaunum sem sjálfsögðum hlut.“

DiCaprio var fyrst tilnefndur til verðlaunanna árið 1993 fyrir hlutverk sitt í What's Eating Gilbert Grape. Þá hlaut hann tilnefningu árið 2005 fyrir hlutverk sitt í The Aviator, árið 2007 fyrir Blood Diamond og árið 2014 fyrir The Wolf of Wall Street.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×