Fótbolti

Deschamps velur Instagram-stjörnuna aftur í franska landsliðið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Patrice Evra og Paul Pogba eftir úrslitaleik EM síðasta sumar.
Patrice Evra og Paul Pogba eftir úrslitaleik EM síðasta sumar. Vísir/Getty
Juventus-maðurinn Patrice Evra mun snúa aftur í franska landsliðið í verkefnum nóvembermánaðar eftir fjögurra mánaða fjarveru.

Didier Deschamps, þjálfari franska landsliðsins, þurfti að leita til hins 35 ára gamla reynslubolta vegna meiðsla Layvin Kurzawa sem meiddist á fæti um helgina.  L´Equipe segir frá.

Deschamps hafði ekki valið Patrice Evra í landsliðið síðan á Evrópumótinu í Frakklandi í sumar og síðasti landsleikur hans var úrslitaleikur Evrópumótsins á móti Frakklandi.

Patrice Evra hafði aldrei gefið það út að hann væri hættur að gefa kost á sér í franska landsliðið. Evra spilaði sinn fyrsta landsleik árið 2004 en hann á að baki 80 A-landsleiki fyrir Frakka.

Evra hefur vakið meira athygli á sér á samfélagsmiðlum en hann hefur farið á kostum á Instagram á þessu ári. Instagram-stjarnan á hinsvegar enn erindi í franska landsliðið að mati Deschamps.

Layvin Kurzawa er 24 ára gamall og spilar með stórliði Paris Saint-Germain. Hann hefur spilað sex landsleiki og skoraði sitt fyrsta landsliðsmark í septemberbyrjun.

Patrice Evra kemur nú inn fyrir leik á móti Svíum í undankeppni HM 2018 og vináttuleik á móti Fílabeinsströndinni. Leikur Frakka og Svía er toppslagur riðilsins en bæði lið eru taplaus með sjö stig og markatöluna 5-1 eftir fyrstu þrjár umferðirnar.

Patrice Evra hefur spilað með Juventus árið 2014 þegar hann yfirgaf Manchester United eftir átta ár. Evra varð fimm sinnum enskur meistari með United og hefur þegar unnið ítalska titilinn tvisvar sinnum með Juventus.

Patrice Evra.Vísir/Getty

Tengdar fréttir

Evra hrósar sínum forna fjanda

Patrice Evra, leikmaður Juventus, hrósaði fjandvini sínum, Luis Suárez, eftir að sá síðarnefndi fékk gullskóinn fyrir að vera markakóngur Evrópu á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×