Enski boltinn

Derby fór áfram í deildabikarnum eftir 32 vítaspyrnur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Scott Carson, markvörður Derby, þurfti sjálfur að fara á punktinn í vítakeppninni gegn Carlisle.
Scott Carson, markvörður Derby, þurfti sjálfur að fara á punktinn í vítakeppninni gegn Carlisle. vísir/getty
Það er óhætt að segja að leikur Derby County og Carlisle United í enska deildabikarnum í gær hafi dregist á langinn.

Reynsluboltinn Darren Bent kom Derby yfir á 56. mínútu en Mike Jones jafnaði metin fyrir D-deildarlið Carlisle þegar fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Ekkert var skorað í framlengingunni og því þurfti að grípa til vítaspyrnukeppni til að knýja fram úrslit.

Það gekk heldur seinlega en úrslitin réðust ekki fyrr en í spyrnu númer 32. Hinn 18 ára gamli Timi Max Elsnik, sem var að leika sinn fyrsta leik fyrir Derby, skoraði þá framhjá Mark Gillespie og tryggði Derby farseðilinn í 3. umferð deildabikarsins.

Gillespie og Scott Carson, kollegi hans í marki Derby, þurftu báðir að fara á punktinn en sex leikmenn tóku tvær spyrnur í þessari maraþonvítakeppni.

Alls nýttu leikmenn liðanna 27 af 32 spyrnum sem verður að teljast ágætis árangur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×