Innlent

Demba á geðdeild í gær

Samúel Karl Ólason skrifar
Meðal annars lak vatn inn á setustofu geðdeildarinnar.
Meðal annars lak vatn inn á setustofu geðdeildarinnar. Vísir/Vilhelm
Sannkallað úrhelli var í viðtalsherbergjum og setustofu Bráðageðdeildarinnar við Hringbraut í gærkvöldi. Þar lak gífurlega mikið vatn úr þaki húsnæðisins, eins og sést á meðfylgjandi myndbandi sem Helga Birgisdóttir, eða Gegga, tók.

Hún segir að þarna hafi lekið vatn áður en aldrei í þessu magni. „Ég hef aldrei séð svona mígandi dembu áður. Regnið steyptist niður himnum frá,“ segir Gegga í samtali við Vísi.

Myndband Geggu hefur vakið mikil viðbrögð á Facebook. „Ég átti aldrei von á þessum viðtökum. Sumir virðast vera reiðir en ég vil taka húmorinn á hlutina.“

Gegga ber ávallt með sér grip sem heitir Smiler og hún heldur fyrirlestra um jákvætt viðhorf á geðdeildinni. „Smiler minnir mig alltaf á að hugsa jákvætt og trúa því að það séu gjafir í öllum uppákomum. Mér finnst mikilvægt að minna fólk á það. Það er alltaf viðhorf okkar sem skapar framtíðina.“

Varðandi þær gjafir sem þessi uppákoma gæti skapað segir Gegga að vandi sé um slíkt að spá, eins og segir í jólalaginu.

„Það gæti til dæmis verið að endurnýjunarframkvæmdir á deildinni verði teknar úr bið og kannski verður drifið í að taka eitthvað í gegn. Kannski verður sett meira fjármagn til okkar og svo er þetta svolítið hressilega uppákoma á laugardagskvöldi. Ég trúi því að það séu gjafi í öllu og að það séu ekki til tilviljanir. Við erum okkar eigin skaparar. Ég er spennt yfir því að fá að vita hvaða gjöf kemur frá þessari uppákomu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×