Fótbolti

Del Bosque: Óréttlátt ef Iniesta vinnur aldrei Gullboltann

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Iniesta varð tvöfaldur meistari með Barcelona í ár.
Iniesta varð tvöfaldur meistari með Barcelona í ár. vísir/getty
Vicente del Bosque, landsliðsþjálfari Evrópumeistara Spánverja, segir að það yrði óréttlátt ef Andres Iniesta myndi aldrei vinna Gullboltann, sem er veittur besta leikmanni heims á hverju ári.

Iniesta hefur átt afar farsælan feril, bæði með Barcelona og spænska landsliðinu. Hann hefur m.a. unnið Meistaradeild Evrópu í þrígang með Barcelona og orðið heimsmeistari og tvisvar sinnum Evrópumeistari með spænska landsliðinu. Alls hefur Iniesta unnið 28 titla með Barcelona síðan hann lék sinn fyrsta leik fyrir félagið 2002.

Þrátt fyrir þessa glæsilegu ferilskrá hefur Iniesta aldrei unnið Gullboltann. Hann komst næst því 2010 þegar hann lenti í 2. sæti á eftir samherja sínum hjá Barcelona, Lionel Messi. Miðjumaðurinn snjalli varð svo í 3. sæti í kjörinu tveimur árum síðar.

„Það yrði óréttlátt ef Iniesta myndi hætta án þess að vinna Gullboltann,“ sagði Del Bosque.

„En það er erfitt þegar þú ert að keppa við leikmenn á borð við Messi og Cristiano Ronaldo,“ bætti Del Bosque við.

Iniesta átti frábæran leik þegar Barcelona vann 2-0 sigur á Sevilla í úrslitaleik spænsku bikarkeppninnar á sunnudaginn og Del Bosque segir að það gefi góð fyrirheit fyrir EM í Frakklandi sem hefst í næsta mánuði.

„Við erum mjög ánægðir að sjá Iniesta svona góðan, eins og hann var í úrslitaleiknum. Jafnvel þegar Barcelona var manni færri tók hann stjórnina í leiknum og hjálpaði liðinu yfir erfiðustu hjallana,“ sagði landsliðsþjálfarinn.

Spánn, sem vann EM 2008 og 2012, er í riðli með Tyrklandi, Króatíu og Tékklandi í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×