Lífið

Deilt um gæði lýsinga Gumma Ben: „Spastísk öskur“ eða „lýsingar frá hjartanu“?

Atli Ísleifsson skrifar
Sænska goðsögnin Glenn Strömberg fylgist með Gumma Ben.
Sænska goðsögnin Glenn Strömberg fylgist með Gumma Ben. Vísir/AFP
Fótboltalýsingar Guðmundar Benediktssonar frá EM í knattspyrnu hafa vakið heimsathygli síðustu daga þar sem heimsbyggðin hefur hrifist með. Ekki eru þó allir jafn hrifnir af lýsingum Gumma.

Þannig ræðir norska blaðið Verdens Gang við tvo þekkta þarlenda lýsendur – þá Morten Langli og Arne Scheie – sem eru á sitt hvorri skoðun um Gumma og lýsingar hans.

Guðmundur missti fullkomlega stjórn á tilfinningum sínum þegar Íslendingar tryggðu sér sigur á Austurríki í síðasta leik riðlakeppninnar og ástandið var svipað þegar Kolbeinn Sigþórsson kom Íslendingum yfir á móti Englendingum í gærkvöld sem reyndist sigurmark leiksins.

Hinn 42 ára Langli, sem hefur lýst fótboltaleikjum á fjölda sjónvarpsstöðva í Noregi, lýsti yfir skoðun sinni á frammistöðu Gumma á Twitter í gærkvöldi. Sagði hann það vissulega skemmtilegt að fylgjast með lýsingum Íslendingsins en frá faglegum sjónarhóli er þetta ekki gott og kallar þetta „spastísk öskur“.

Langli heldur svo áfram og segir að í aðstæðum sem þessum eigi lýsandinn að skila klassískum línum með upplýsingum sem skipta máli. „Ekki bara sjúkt öskur.“

Hinn 72 ára Arne Scheie, sem starfaði lengi á íþróttadeild norska ríkisútvarpsins, tekur þó upp hanskann fyrir Guðmund og segir að menn geti verið með lýsingar af atburðum án þess að vera kollinn í fullkomnu jafnvægi.

„Einhvern tímann kemur þú á þann stað að þú hefur komið skilaboðunum á framfæri, og þú lýsir meira með hjartanu en heilanum. Þér líður þannig að það er fyrst og fremst gleðin sem þarf að fá útrás,“ segir Scheie.


Tengdar fréttir

Vill ráða Gumma Ben til CBS

Spjallþáttastjórnandinn vinsæli, Stephen Colbert, var, líkt og heimurinn, afar ánægður með lýsingu Gumma Ben á sigurmarki Íslands gegn Austurríki.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×