Innlent

Deilt á skuldalækkunarfrumvarp

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Frumvarp ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána fær misjafna dóma.
Frumvarp ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu verðtryggðra fasteignalána fær misjafna dóma. Visir/GVA
„Stórir hópar munu ekki njóta gjafa- og örlætisgerninga frumvarpsins. Ber þar fyrst að nefna leigjendur en 25 prósent allra heimila eru í leiguíbúð,“ segir Pétur Blöndal, Sjálfstæðisflokki, sem skilaði séráliti í efnahags- og viðskiptanefnd um frumvarp ríkisstjórnarinnar um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaverðlána.

Pétur segir að staða leigjenda sé oft mjög slæm því til viðbótar leigu, sem er oftast verðtryggð, komi skortur á leiguíbúðum. Hann segir að þeir sem búa í skuldlausri íbúð, líklega 20 prósent heimila og oft eldra fólk, fái ekki neitt.

Í efnahags- og viðskiptanefnd voru skrifuð fimm álit um frumvarpið, eitt frá stjórnarmeirihlutanum í nefndinni og fjögur frá minnihlutanum.

Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar vegsamar frumvarpið. Meirihlutinn segir að með því sé komið til móts við heimilin í landinu með almennum aðgerðum sem ná fram höfuðstólslækkun verðtryggðra lána án þess að fórna sjálfbærni og stöðugleika við stjórnun ríkisfjármála.



Í minnihlutaálitunum er það rauður þráður að í frumvarpinu felist mismunun og að þeir betur stæðu hagnist á skuldaniðurfellingunum. Þá er bent á að úrræðin nái hvorki til námslána, leigjenda né búseturéttarhafa.



„Út frá mörgum hliðum felst í raun pínlegt óréttlæti í því að aðgerðirnar taki einungis til þeirra sem skuldað hafa vegna húsnæðiskaupa á vissu tímabili,“ segir Guðmundur Steingrímsson, Bjartri framtíð, og veltir upp þeirri spurningu hvort það væri ekki réttlátara að ríkissjóður léti hverjum og einum Íslendingi í té vissa upphæð.

Steingrímur J. Sigfússon, VG, kallar frumvarpið móður allra kosningaloforða.

Hann segir ljóst að samfélagsleg áhrif boðaðrar niðurfærslu séu til þess fallin að styrkja hag hinna betur megandi. „Notkun almannafjár í því skyni og í þeim mæli sem áformað er verður að teljast öldungis fráleit,“ segir Steingrímur.

Árni Páll Árnason, Samfylkingu, segir að frumvarpið feli í sér flutning á peningum frá þeim tekjuminni og meðaltekjufólki til þeirra ríkari, frá ungu fólki og öldruðu fólki til fólks á besta aldri og frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×