Erlent

Deilan um vegginn heldur áfram - "Mexíkó mun ekki borga“

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/EPA/Getty
Mexíkó mun borga fyrir vegginn. Mexíkó mun ekki borga fyrir vegginn. Forsetaframbjóðandinn Donald Trump og Enrique Pena Nieto, forseti Mexíkó, hafa skipst á þessum setningum ansi oft undanfarna mánuði. Þeir funduðu svo í Mexíkó í gær, en þrátt fyrir það halda þeir áfram að kasta fram sömu setningunum.

Skömmu eftir fund þeirra sagði Trump að hann og Nieto hefðu ekkert rætt um hver ætti að borga fyrir kosningaloforð Trump. Það er að byggja vegg á landamærum Mexíkó og Bandaríkjanna.

Á kosningafundi sínum í gær ítrekaði Trump þó að veggurinn yrði byggður og að Mexíkó myndi borga fyrir hann.

„Mexíkó mun borga fyrir vegginn. Hundrað prósent. Þeir vitað það ekki enn, en þeir munu borga.“

Nieto segir þó að í byrjun fundar þeirra hafi hann komið Trump í skilning um að Mexíkó myndi aldrei borga fyrir vegginn margumrædda.

Forsetinn gerði Trump grein fyrir því að fjöldi innflytjenda frá Mexíkó til Bandaríkjanna hefði náð hámarki fyrir mörgum árum og kvartaði yfir flæði vopna frá Bandaríkjunum til Mexíkó. Hann sagði vopnin gera slæmt stríð á milli glæpagengja í Mexíkó mun verra.

Trump hefur byggt framboð sitt á baráttu gegn ólöglegum innflytjendum í Bandaríkjunum. Hann hefur meðal annars sagt að margir þeirra sem komi ólöglega frá Mexíkó séu glæpamenn, fíkniefnasalar og nauðgarar.

Áætlað er að um ellefu milljónir manna séu í Bandaríkjunum ólöglega. Þar af eiga margir fjölskyldur sem eru löglega í Bandaríkjunum.

Undanfarnar vikur virðist sem að Trump hafi mildast í afstöðu sinni gagnvart ólöglegum innflytjendum, en það virðist allt hafa verið dregið til baka í gær.

Hann sagðist ætla að stofna sérstakt löggæsluembætti sem ætti að flytja alla þá innflytjendur sem hafa verið handteknir fyrir glæp (ekki dæmdir) á brott frá Bandaríkjunum. Hann hét því að vísa tveimur milljónum manna úr landi á fyrsta klukkutíma sínum í embætti forseta.

Á vef Independent er farið yfir sannleiksgildi ýmissa staðhæfinga Trump á fundinum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×