Fótbolti

Defoe ekki lengi að láta til sín taka í sigri Englands | Sjáðu mörkin

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Jermaine Defoe sneri aftur í enska landsliðið í dag eftir þriggja og hálfs árs fjarveru og skoraði annað marka Englands í 2-0 sigri á Litháen á Wembley en enska landsliðið er því með gott forskot á toppi F-riðilsins í undankeppni HM 2018.

Það var töluvert um meiðsli í enska leikmannahópnum og fengu leikmenn á borð við Defoe og Michael Keane því tækifærið en það tók Defoe aðeins 22. mínútur að stimpla sig inn með marki.

Skoraði hann þá af stuttu færi eftir góðan undirbúning Raheem Sterling og var staðan 1-0 í hálfleik, Englandi í vil. Defoe kom af velli á 60. mínútu fyrir Jamie Vardy og bætti varamaðurinn Vardy við marki sex mínútum síðar eftir sendingu frá Adam Lallana.

Enska liðið fékk færi til að bæta við mörkum en sigurinn var aldrei í hættu og fögnuðu þeir ensku því sannfærandi sigri að lokum.

England er með þrettán stig á toppi F-riðilsins að fimm leikjum loknum en Slóvenar og Slóvakar geta saxað á forskot enska liðsins á eftir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×