Fótbolti

De Boer: Memphis Depay hefur allt

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Memphis Depay fagnar hér titlinum með þeim Luuk de Jong og  Georgino Wijnaldum.
Memphis Depay fagnar hér titlinum með þeim Luuk de Jong og Georgino Wijnaldum. Vísir/AFP
Hollenski knattspyrnumaðurinn Memphis Depay hefur verið sterklega orðaður við Manchester United í vikunni eftir að hann varð hollensku meistari með PSV Eindhoven.

Liverpool hafði mikinn áhuga á leikmanninum en nú virðist þessi 21 árs gamli landsliðsmaður vera á leiðinni til erkifjendanna í United.

Ronald de Boer, fyrrum miðjumaður Ajax og hollenska landsliðsins, hefur mikla trú á þessum strák sem fótboltaheimurinn tók fyrst eftir fyrir álvöru með hollenska landsliðinu á HM í Brasilíu síðasta sumar.

„Ég vil ekki segja hvort liðið sé betra fyrir hann en ef hann fer til United þá er hann að hitta fyrir hollenskan stjóra sem þekkir hann vel frá HM. Þar fær hann forskot," sagði Ronald de Boer.

Ronald de Boer hrósaði Memphis Depay mikið og talaði um hann sem bæði einn af efnilegustu knattspyrnumönnum Evrópu og er á því að hann hafi allt sem knattspyrnumaður vill hafa.

Memphis Depay er með 20 mörk og 4 stoðsendingar í 27 leikjum með PSV Eindhoven og liðið var á dögunum hollenskur meistari í fyrsta sinn síðan 2008.

Depay var með 12 mörk og 8 stoðsendingar í 32 leikjum í hollensku deildinni í fyrra þegar PSV-liðið endaði í  fjórða sætinu á eftir Ajax, Feyenoord og Twente.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×