Fótbolti

De Boer: Hiddink var aldrei rétti maðurinn fyrir Holland

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Guud Hiddink stýrir Hollandi ekki aftur gegn Íslandi.
Guud Hiddink stýrir Hollandi ekki aftur gegn Íslandi. vísir/getty
Ronald de Boer, fyrrverandi landsliðsmaður Hollands í fótbolta, segir að hollenska knattspyrnusambandið hefði aldrei átt að ráða Guus Hiddink sem eftirmann Louis van Gaal hjá hollenska landsliðinu.

Hiddink sagði starfi sínu lausu í gær eftir vonbrigðin í undankeppninni til þessa, en Holland er búið að tapa bæði gegn Tékklandi og Íslandi auk þess sem liðið gerði jafntefli heima gegn Tyrklandi.

Hiddink tók við af Van Gaal eftir að hann stýrði liðinu til bronsverðlauna á HM 2014 í Brasilíu, en er nú hættur tæpu ári eftir að hann var ráðinn til starfa.

De Boer, sem spilaði með landsliðinu í tíu ár frá 1993-2003, var undir stjórn Hiddinks á þeim tíma þegar hann stýrði liðinu fyrst frá 1995-1998.

„Hollenska knattspyrnusambandið ber jafnmikla ábyrgð á þessu og Hiddink,“ segir De Boer í viðtali við hollenska blaðið De Telegraaf, en hann hefur gagnrýnt endurráðningu Hiddinks allt síðasta ár.

„Það sáu allir á fyrsta degi, þegar Holland tapaði 2-0 gegn Ítalíu í vináttuleik, að hlutirnir voru ekki í lagi.“

„Ég finn gríðarlega til með Guus. Ég ber mikla virðingu fyrir honum og hans afrekum en menn verða að vita hvenær þeir eiga að hætta og Hiddink vissi það ekki.“

De Boer vildi að Ronald Koeman yrði ráðinn þjálfari Hollands síðasta sumar, en hollenska knattspyrnusambandinu fannst hann ekki nógu sterkur taktískt.

„Koeman var rétti maðurinn í starfið og hann vildi fá starfið. Hann virkilega vildi það,“ segir Ronald De Boer.

Koeman tók þess í stað við Southampton og var lengi vel í baráttunni um Meistaradeildarsæti í ensku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×