Enski boltinn

David Moyes fær starf stóra Sam hjá Sunderland

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Moyes er kominn aftur í ensku úrvalsdeildina.
David Moyes er kominn aftur í ensku úrvalsdeildina. Vísir/AFP
Íslandsvinurinn David Moyes hefur verið ráðinn knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Sunderland til næstu fjögurra ára.

Hinn 53 gamli David Moyes tekur við starfinu af Sam Allardyce sem hætti til þess að geta tekið við enska landsliðinu.

"Ég hef tekið við stórum breskum klúbbi sem hefur mikinn stuðning og hlakka til að vinna aftur í ensku úrvalsdeildinni," sagði David Moyes við BBC.

David Moyes hefur verið atvinnulaus síðan að hann var rekinn frá Real Sociedad í nóvember síðastliðnum.

Ellis Short, stjórnarformaður Sunderland, sagðist hafa verið að reyna að fá David Moyes til að taka við liðinu í síðustu fimm skipti sem Sunderland var að leita sér að nýjum knattspyrnustjóra.

"Hann var án nokkurs vafa okkar fyrsti kostur. Ég hef talað við hann margoft og hefur verið hrifinn af honum lengi," sagði Ellis Short.

David Moyes var knattspyrnustjóri Everton í ellefu ár en tók síðan við liði Manchestedr United af Sir Alex Ferguson. Moyes gerði sex ára samning við United en það var erfitt að fylgja í fótspor Sir Alex.

Moyes var aðeins í tíu mánuði í starfi á Old Traffor áður en hann var rekinn og Skotinn var síðan látinn fara eftir 364 daga hjá Real Sociedad.

David Moyes verður fjórði knattspyrnustjóri Sunderland á innan við þremur árum en á undan honum hafa verið í starfinu þeir Gus Poyet, Dick Advocaat og svo Allardyce sem bjargaði liðinu frá falli á síðasta tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×