Fótbolti

David Luiz: Ég er ekki hreinn sveinn

Tómas Þór Þórðarson skrifar
David Luiz í leik með PSG.
David Luiz í leik með PSG. vísir/getty
David Luiz, miðvörður Paris Saint-Germain, er vægast sagt ósáttur við franska fjölmiðla sem hafa skrifað undanfarna daga að hann sé hreinn sveinn.

Þetta byrjaði allt saman þegar hinn 28 ára gamli Luiz, sem er mjög trúaður, var skírður í sundlaug liðsfélaga síns, Maxwells, og sagði á Instagram að hann „myndi bíða“ með kærustunni sinni.

„Fólk talar nú ekki um annað en hvort ég sé hreinn sveinn eða ekki. Ég er ekki hreinn sveinn,“ segir Luiz í viðtali við BBC.

„Sumt fólk í fjölmiðlum virðir ekki einkalíf annarra. Sjálfur get ég sofið rólega því ég virði alla. Ég er ánægður með mína trú og mína skírn.“

Luiz fór á kostum í 16 liða úrslitum Meistaradeildarinnar gegn sínu gamla félagi Chelsea, en PSG féll úr leik í átta liða úrslitum gegn Barcelona.

„Ég vil vinna Meistaradeildina á næstu leiktíð. Það vilja allir hjá félaginu. Við erum að byggja upp lið hérna og erum orðnir mjög góðir nú þegar,“ segir David Luiz.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×