Sport

David Ginola fluttur með hraði á sjúkrahús

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
David Ginola.
David Ginola. Vísir/Getty
David Ginola, fyrrum leikmaður Newcastle United og Tottenham Hotspur, er á sjúkrahúsi eftir að hafa hnigið niður í gær.  Óttast er að Ginola hafi fengið hjartaáfall en hann var að taka þátt í golfmóti á sumardvalarstaðnum Mandelieu í suðurhluta Frakklands.

Golfmótið átti að hefjast seinna um daginn en Ginola var gestur Jean-Stéphane Camérini sem heldur Mapauto golfmótið.

Franska blaðið Nice-Matin segir frá þessu í dag en Ginola var um klukkan hálf fimm að staðartíma í gær fluttur með þyrlu á sjúkrahús þar sem hann gekkst undir rannsóknir.

David Ginola er 49 ára gamall og hafði ekki sýnt nein merki um að honum liði illa áður en þetta gerðist. Ginola er nú á hjartadeildinni á sjúkrahúsi Grace prinsessu í Mónakó.

Newcastle United keypti David Ginola á 2,5 milljónir punda árið 1995. Hann lék alls 195 leiki í ensku úrvalsdeildinni fyrir Newcastle, Tottenham, Aston Villa og Everton en hann skoraði í þeim 21 mark.

Ginola vakti mikla athygli fyrir tilþrif sín í enska boltanum en hann fékk ekki mörg tækifæri með franska landsliðinu og lék bara 17 landsleiki.

David Ginola var kosinn leikmaður ársins 1999 þegar hann var á sínu síðasta tímabili með Tottenham. Hann lagði skóna á hilluna árið 2012.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×