Íslenski boltinn

Davíð: Vildum benda á hversu mikil völd fjölmiðlar hafa

Leikmenn FH settu tvo netmiðla í fjölmiðlabann eftir síðasta leik FH gegn ÍA.

Þeir voru ósáttir við frétt 433.is eftir leik Vals og FH en fréttin snérist um hluti sem Bjarni Þór Viðarsson átti að hafa sagt í leiknum. Fótbolti.net tók fréttina líka upp.

Leikmenn liðsins urðu fúlir með þennan fréttaflutning og ákváðu að setja miðlana í bann eftir leikinn gegn ÍA.

„Við vildum vekja athygli á þeim vinnbrögðum sem voru viðhöf eftir Valsleikinn. Okkur fannst þessi vinnubrögð ekki vera boðleg hjá þessum annars ágætu miðlum," sagði Davíð Þór Viðarsson, fyrirliði FH, í Akraborginni hjá Hirti Hjartarsyni í dag.

„Ég kalla þetta ekki frétt og mér fannst hún vera léleg."

Margir hafa gagnrýnt leikmenn liðsins fyrir bannið og telja að með þessu séu FH-ingar að reyna að hafa áhrif á fréttaflutning af FH.

„Það er ekki málið. Við erum ekki að reyna að lítilsverða fjölmiðla. Við látum fréttina ekki sem vind um eyru þjóta heldur vildum við benda á hversu mikil völd fjölmiðlar hafa. Því valdi fylgir ábyrgð," segir Davíð en ekki liggur fyrir hversu lengi FH-ingar ætla að vera í fjölmiðlabanni.

Viðtalið sem Hjörtur Hjartarson tók við Davíð Þór í Akraborginni má hlusta á í heild sinni hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×