Innlent

Dauðsfallið á Hvammstanga: Rannsókn lögreglu lokið

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Frá Hvammstanga.
Frá Hvammstanga. Vísir/Jón Sigurður
Rannsókn lögreglunnar á Akureyri á meintri líkamsárás á Hvammstanga í júní, sem leiddi til dauðsfalls bæjarbúa, Tomasz Krzeczkowsk, lauk í síðustu viku. Málið er nú á borði löglærðs fulltrúa lögreglunnar og fer þaðan til ríkissaksóknara.

Að sögn Gunnars Jóhannesar Jóhannssonar hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri benda niðurstöður úr krufningu til þess að Tomasz hafi látist af völdum áverka á höfði sem hann hlaut við fall.

Tveir menn, feðgar sem bjuggu í húsinu þar Tomasz fannst látinn þann 18. júní, sættu farbanni sem rann út í september. Farbannið yfir mönnunum var ekki framlengt þar sem ekki þótti tilefni til þess.

Rannsókn málsins tók nokkuð langan tíma.

„Eiginlegri rannsókn lögreglunnar lauk mun fyrr en þessi tímasetning núna gefur til kynna. Krufning tekur alltaf langan tíma og að henni lokinni þarf að gera ýmsar efnarannsóknir. Auk þess var beðið niðurstöðu úr DNA-rannsókn sem gerð var úti í Svíþjóð,“ segir Gunnar í samtali við Vísi.

Saksóknari tekur ákvörðun um hvort gefin verði út ákæra í málinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×