Lífið

Dauði ástralsks kvikmyndaframleiðanda stórlega ýktur á Óskarnum

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
Janet Patterson lést árið 2015 en konan á myndinni er á lífi.
Janet Patterson lést árið 2015 en konan á myndinni er á lífi. Skjáskot/ABC
Kvikmyndaframleiðandanum Jan Chapman brá heldur betur í brún þegar mynd af henni birtist í myndbandi þar sem látins kvikmyndagerðarfólks var minnst á Óskarnum í gær.

Mynd af henni var birt við nafn Janet Patterson. Patterson var ástralskur búningahönnuður sem var fjórum sinnum tilnefnd til Óskarsverðlauna fyrir sín störf. Hún lést í október árið 2015.

Í myndbandinu var Patterson rétt nefnd og rétt titluð en myndin sem fylgdi var af Jan Chapman, sem er enn á lífi.

„Ég var miður mín að sjá mynd af mér notaða í stað vinar og samstarfsfélaga míns Janet Patterson. Ég hafði hvatt umboðsskrifstofu hennar til að athuga hvaða mynd yrði notuð og mér skilst að þeim hafi verið tjáð að akademían væri með það á hreinu. Janet var mjög falleg og var fjórum sinnum tilnefnd til Óskarsverðlauna og það er mjög ámælisvert að enginn hafi tekið eftir þessari villu,“ segir Chapman í skirflegu svari til Variety.

„Ég er á lífi og ég er starfandi framleiðandi.“

Akademían hefur ekki enn gefið út yfirlýsingu vegna mistakanna. Þetta er ekki það eina sem misfórst á hátíðinni í gær en hið ótrúlega gerðist þegar röng mynd var tilkynnt sem sigurvegari verðlauna sem besta kvikmyndin.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×