Erlent

Darth Vader vill á þing í Úkraínu

Samúel Karl Ólason skrifar
Darth Vader er sífellt varinn af tveimur stormsveitarhermönnum.
Darth Vader er sífellt varinn af tveimur stormsveitarhermönnum. Vísir/AP
Einn frambjóðandi í þingkosningunum í Úkraínu þeysir um götur Kænugarðs á þaki bifreiðar, klæddur sem Darth Vader úr stjörnustríðsmyndunum. Vader reynir að heilla kjósendur með þá að lofa að gera Úkraínu að stórveldi á alheimsvísu. Hann leiðir Internet flokkinn í Úkraínu og segir hann vera háalvarlegan flokk.

Svo alvarlega hefur maðurinn sem áður var þekktur sem Viktor Schevchenki, tekið þessu uppátæki sínu, að hann hefur löglega breytt nafni sínu í Darth Alekeyevich Vader, samkvæmt AP fréttaveitunni.

Hans stærsta markmið er að tölvuvæða alla opinbera þjónustu.

Flestum þykir ólíklegt að Internetflokkurinn, sem einnig er með Stepan Chewbacca á lista, muni ná manni á þing. Íbúar Kænugarðs taka Darth Vader þó alltaf vel þegar hann ferðast um götur borgarinnar í fullum skrúða. Til ferðanna notar Vader sendiferðabíl sem hann talar um sem þyrluna sína.

Þrátt fyrir að Vader sé talsmaður meira gegnsæis þvertekur hann fyrir að sýna sitt rétta andlit. Fyrr á árinu fékk hann ekki að taka þátt í forsetakosningum í Úkraínu þar sem hann þurfti að sýna andlit sitt, til að fá að kjósa.

Þawr að auki ætlar Darth Vader að brjóta á bak uppreisnina í austri og að endurheimta Krímskaga af Rússum. Aðspurður hvernig hann ætlaði að fara að því sagði Vader:

„Við munum byggja herstöð í geimnum sem mun vernda Úkraínu.“

Darth Vader ferðast um á „þyrlunni sinni“.Vísir/AP



Fleiri fréttir

Sjá meira


×