Erlent

Danskir flokkar fela peninga í leyniklúbbum

Ingibjörg Bára Sveinsdóttir skrifar
Danska þinghúsið. Stofnun peningaklúbba danskra þingflokka hefur sætt harðri gagnrýni.
Danska þinghúsið. Stofnun peningaklúbba danskra þingflokka hefur sætt harðri gagnrýni. NORDICPHOTOS/GETTY
Nokkrir flokkar á danska þinginu hala inn fé í flokkssjóði sína í gegnum lokaða klúbba fyrir fólk í atvinnulífinu og hagsmunasamtökum. Í umfjöllun Jótlandspóstsins um klúbbana, sem kallaðir eru peningaklúbbar, segir að leynd hvíli yfir því hverjir séu klúbbfélagar og einnig yfir því hversu mikið fé streymi til flokkanna.

Að minnsta kosti fjórir þingflokkar nýta sér svokallaða peningaklúbba, að því er Jótlandspósturinn greinir frá. Það eru Venstre, Íhaldsflokkurinn, Frjálslynda bandalagið og Jafnaðarmannaflokkurinn. Klúbbfélagar greiða á hverju ári fé til að geta tekið þátt í lokuðum viðburðum og hitt framámenn í viðkomandi stjórnmálaflokkum.

Sú staðreynd að stjórnmálaflokkarnir geti notað lokaða klúbba til að fela háar fjárhæðir frá einkaaðilum hefur sætt gagnrýni árum saman. Jafnframt hefur verið gagnrýnt að gefendur sleppi við nafnbirtingu í bókhaldi flokkanna þegar fjárframlögin fara í gegnum peningaklúbbana.

Flokkssjóður Venstre, flokks Lars Løkke Rasmussen forsætisráðherra, hefur um árabil notið góðs af fjárframlögum frá Frjálslynda atvinnulífsklúbbnum. Nú hefur flokkurinn stofnað nýjan peningaklúbb, Frjálsa atvinnulífsfélagið. Fyrsti fundurinn verður haldinn í embættisbústað forsætisráðherrans, Marienborg.

Danska útvarpsstöðin Radio24syv kveðst hafa undir höndum bréf Venstre til útvalins hóps manna þar sem þeim er boðin aðild að nýja félaginu. Árgjaldið er 20.000 danskar krónur sem jafngildir um 310 þúsundum íslenskra króna. Útvarpsstöðin greinir frá því að í boðinu um aðild standi að hagnaðurinn renni til flokksins. Séu fjárframlög umfram 20 þúsund danskar krónur þurfa flokkarnir að birta nöfn gefenda.

Gagnrýnendur benda á að Marienborg sé embættisbústaður forsætisráðherra. Fulltrúi Einingarlistans, Maria Gjerding, segir það óásættanlegt að þar séu haldnir fjáröflunarviðburðir fyrir stjórnmálaflokk. Þetta sé til marks um að herða þurfi reglurnar.

Í skriflegu svari til útvarpsstöðvarinnar segir ritari Venstre, Claus Richter, að tilgangurinn með stofnun Frjálslynda atvinnulífsfélagsins sé að efla samræðurnar milli danskra samtaka, félaga og Venstre. Það gagnist öllum. Enginn geti keypt sér áhrif hjá flokknum. Ritarinn nefnir ekkert um þá staðreynd að halda eigi fyrsta fundinn í embættisbústað forsætisráðherrans.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×