Innlent

Dansinn dunar á Flúðum

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Dansinn dunar á Flúðum um helgina því þar stendur yfir Lindy hop danshátíðin „Lindy on Ice“ sem haldin er í fyrsta skipti á Íslandi þar sem fjöldi erlendra og innlendra dansara taka þátt.

Ómurinn af danstónlistinni úr Félagsheimilinu á Flúðum berst í næsta nágrenni heimilisins. Innan dyra er hópur lindy hop dansara að dansa undir lifandi tónlist sveifluhjómsveitar á sviðinu. Hátíðin hófst á fimmtudaginn og stendur til morguns. Boðið er upp á kennslu og dansleiki fyrir byrjendur og lengri koma. 12 erlendir gestir eru á hátíðinni, auk fjölda íslendinga sem dansa Lindy hop í hverri viku. En  hvað er Lindy hop?

„Það er í stuttu máli skemmtilegasti dans í heimi. Í lengra máli er þetta dans sem þróaðist í Harlem í New York við lok þriðja áratugs tuttugustu aldar, hjá blökkumönnum þar, þróaðist meðfram „swinginu“,“ segir Sigurður Helgi Oddsson, einn skipuleggjenda hátíðarinnar.

Hann segir einhverja tugi stunda lindy hop á Íslandi og senan fari sívaxandi. Danskvöld eru reglulega haldin á Petersensvítunni í miðbæ Reykjavíkur og þá eru áhugasamir hvattir til að kynna sér Lindy Ravers, áhugamannafélag um lindy hop á Íslandi.

Hátíðinni lýkur annað kvöld með stórdansleik í Iðnó í Reykjavík þar sem allir eru velkomnir til að horfa á eða dansa með.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×