Erlent

Dansandi lífvörður drottningarinnar í þriggja vikna herfangelsi

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Í myndbandinu sést hvernig maðurinn beygir sig reglulega niður og snýr sér í marga hringi.
Í myndbandinu sést hvernig maðurinn beygir sig reglulega niður og snýr sér í marga hringi. MYND/SKJÁSKOT
Lífvörður bresku hirðarinnar gæti átt yfir höfði sér 21 dags vist í herfangelsi og allt að 1000 sterlingspunda sekt, tæplega 200.000 krónur, fyrir að hafa stigið dans meðan hann stóð vörð fyrir utan Buckingham-höll í London.

Myndskeið af danssporum varðarins, sem sjá má hér að neðan, fór sem eldur í sinu um netheima eftir að það rataði á Youtube í lok ágústmánaðar á þessu ári og hafa nú rúmlega 1.8 milljónir horft á myndbandið á þessari stundu.

Þrátt fyrir að hafa vakið mikla lukku meðal netverja tóku hershöfðingjar ekki jafn vel í uppátæki varðarins og íhuga nú að refsa honum harkalega fyrir athæfið.

Lífvörðurinn getur búist við því að þurfa að að æfa marseringar tímunum saman ásamt því að undirgangast yfirgripsmikil þrekpróf í herfangelsi í Colchester í Essex-sýslu. Þá verða honum ekki greidd laun meðan hann dvelst í fangelsinu, en laun hans telja til um 1000 sterlingspunda á tímabilinu.

Í myndbandinu sést hvernig vörðurinn sem gengur nú undir nafninu „Private dancer“ meðal netverja snýr sér reglulega í hringi meðan áhorfendur hlæja og hvetja hann áfram. Þá setur hann löppina út í nokkrar sekúndur, þurrkar ryk af byssu sinni og beygir sig niður, rétt eins og að hann sé að taka eitthvað upp af jörðinni.

Heimildarmenn segja að engar siðareglur séu til um dansspor konunglegu varðanna – „enda hefur enginn dirfst til að haga sér með þessum hætti svo lengi sem elstu menn muna“.

Drottning var erlendis meðan dansinn átti sér stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×