Handbolti

Danir töpuðu og misstu 2. sætið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Daniel Narcisse skorar eitt átta marka sinna í leiknum í dag.
Daniel Narcisse skorar eitt átta marka sinna í leiknum í dag. vísir/getty
Danir töpuðu með þriggja marka mun, 33-30, fyrir Frökkum í síðasta leik þeirra í A-riðli handboltakeppninnar á Ólympíuleikunum í Ríó í dag.

Lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar luku því leik í riðlakeppninni með sex stig, eftir þrjá sigra og tvö töp. Danir enduðu í 3. sæti A-riðils og mæta Slóvenum í 8-liða úrslitunum.

Það var fátt um varnir í leik dagsins og bæði lið skoruðu nánast að vild.

Frakkar leiddu með einu marki í hálfleik, 17-16, en Danir byrjuðu af krafti í seinni hálfleik og komust í 18-22 eftir 6-1 kafla.

Þá sögðu Ólympíumeistararnir stopp og sigu jafnt og þétt fram úr danska liðinu. Frakkar breyttu stöðunni úr 22-24 í 29-26 og unnu að lokum þriggja marka sigur, 33-30.

Kentin Mahe var markahæstur í liði Frakka með níu mörk en Daniel Narcisse kom næstur með átta. Þessi reyndi kappi var með 100% skotnýtingu í leiknum. Frakkland mætir Brasilíu í 8-liða úrslitunum.

Mikkel Hansen skoraði átta mörk fyrir Dani og Lasse Svan Hansen sex.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×