Erlent

Danir kaupa Panamagögn

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
Panamagögnin sneru að gögnum frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama sem lekið var til Süddeutsche Zeitung.
Panamagögnin sneru að gögnum frá lögfræðistofunni Mossack Fonseca í Panama sem lekið var til Süddeutsche Zeitung. Vísir/AFP
Skattayfirvöld í Danmörku hafa keypt gögn úr Panamalekanum fyrir tæplega sex milljónir danskra króna, eða rúmlega hundrað milljónir íslenskra króna. Talið er að nöfn mörg hundruð Dana sé að finna í gögnunum.

Ríkisstjórnin þar í landi samþykkti kaup á gögnunum fyrr í þessum mánuði og sagði aðgerðir sem þessar nauðsynlegar. Gögnin eru keypt af ónefndum aðila sem hafði sett sig í samband við dönsk stjórnvöld.

Skattayfirvöld segja að um sé að ræða gögn um allt að sex hundruð skattgreiðendur sem nefndir eru í Panamaskjölunum. Þau fengu sýnishorn af gögnunum í sumar og segjast hafa gengið úr skugga um að þau séu ekki fölsuð. Gaf skattamálaráðherra, Karsten Lauritzen, því grænt ljós á að kaupa gögnin. Þau tengjast öll hinum svokallaða Panama-leka sem vakti gríðarlega athygli á heimsvísu síðasta vor, og leiddi meðal annars til afsagnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar úr embætti forsætisráðherra.

Íslensk skattayfirvöld keyptu sambærileg gögn, einnig frá óþekktum aðila, á um þrjátíu milljónir króna.  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×