Handbolti

Daniel Narcisse hélt upp á 300. landsleikinn með sigri á Slóvenum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Daniel Narcisse.
Daniel Narcisse. Vísir/Getty
Frakkar unnu sannfærandi sjö marka sigur á Slóvenum, 33-26, í síðasta undirbúningsleik sínum fyrir HM í Frakklandi sem hefst í næstu viku.

Slóvenar eru með okkur Íslendingum í riðli á HM en þeir náðu ekki að standa í Frökkum eins og í fyrri æfingaleik þjóðanna á föstudagskvöldið þegar Frakkar rétt mörðu tveggja marka sigur, 29-27, eftir að hafa verið tveimur mörkum undir í seinni hálfleiknum.

Frakkar spöruðu lykilmenn fyrir átökin á heimsmeistaramótinu. Nikola Karabatic spilaði bara seinni hálfleikinn og markvörðurinn Thierry Omeyer sat allan leikinn á bekknum.

Frakkar voru 17-13 yfir í hálfleik en þeir voru komnir í 16-9 eftir 26 mínútur. Frakkar voru síðan með fjögurra til fimm marka forystu allan seinni hálfleikinn og juku síðan aðeins muninn í lokin.

Daniel Narcisse náði stórum tímamótum í þessum leik þegar hann lék sinn 300. landsleik fyrir Frakka en aðeins fimm aðrir franskir landsliðsmenn hafa náð því.

Valentin Porte var markahæstur með fimm mörk en Kentin Mahé skoraði fjögur mörk eins og Nedim Remili.

Daniel Narcisse var einn af fimm mönnum með þrjú mörk en þeir William Accambray, Luc Abalo, Cédric Sorhaindo og Michaël Guigou  skoruðu allir líka þrjú mörk í þessum leik.

Gasper Marguc, liðsfélagi Aron Pálmarssonar hjá Veszprém var markahæstur hjá Slóvenum með fimm mörk en Borut Mackovsek skoraði fjögur mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×