Íslenski boltinn

Daníel Laxdal: Hrósa áhorfendum og Silfurskeiðinni

Anton Ingi Leifsson á Laugardalsvelli skrifar
Daníel Laxdal var ánægður með félaga sína í Stjörnuliðinu í kvöld. Daníel segir að upplifunin að spila fyrir framan tíu þúsund manns á Laugardalsvelli í kvöld hafi verið frábær.

„Þetta var svekkjandi að þetta fór 3-0. Þetta er fáranlega gott lið, en mér fannst við ná að halda þeim í skefjum. Svekkjandi að fá á sig svona klaufaleg mörk," sagði Daníel í leikslok, sem átti afar góðan leik.

„Þeir voru helling með boltann, en mér fannst við gera góða hluti. Það var svekkjandi að fá á sig mark í lok fyrri hálfleiks og svo strax í upphafi síðari hálfleiks. Með smá heppni fannst mér við geta skorað, en svo fengum við það þriðja í andlitið."

„Þetta var ekki erfiðari en ég bjóst við. Þetta eru atvinnumenn í knattspyrnu og flestir landsliðsmenn og maður bjóst við að þeir væru sterkir."

„Planið okkar var að liggja aftarlega og beita skyndisóknum, en ég vil hrósa áhorfendur og Silfurskeiðinni sérstaklega. Það var frábær stemning og frábært að spila í flóðljósunum," sagði Daníel sem sagði að þetta hafi ekki toppað stemninguna í Póllandi þar sem Stjarnan spilaði á dögunum.

„Það verður erfitt að toppa það, en á íslenskan mælikvarða var þetta alveg magnað," sagði Daníel við fjölmiðla í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×