Körfubolti

Daníel Guðni hafði hárrétt fyrir sér

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Vísir/Ernir
Daníel Guðni Guðmundsson, nýráðinn þjálfari karlaliðs Njarðvíkur og fyrrverandi þjálfari kvennaliðs Grindavíkur, er ekki bara góður þjálfari því hann er einnig góður spámaður.

Fréttablaðið fékk Daníel á dögunum til að spá fyrir um lokaúrslit kvenna á milli Hauka og Snæfells en þar var útlit fyrir mjög spennandi einvígi.

Daníel Guðni sá fyrir sér að einvígið myndi fara alla leið í oddaleik og að Snæfell myndi fagna Íslandsmeistaratitlinum.

„Bæði liðin eru með gríðarlega sterkan heimavöll og ég er alveg sannfærður um að þetta fari í oddaleik og endi því í úrslitaleik á Ásvöllum,“ segir Daníel í umræddu viðtali í Fréttablaðinu.

„Ég giska á það að Snæfell hafi þetta í oddaleik,“ segir Daníel.

Haukakonur voru komnar í 2-1 í einvíginu og fengu tvo möguleika til að tryggja sér titilinn en meistarar tveggja síðustu ára voru ekki tilbúnar að sjá á eftir titlinum.

Snæfell vann tvo síðustu leiki sína þar á meðal oddaleikinn á Ásvöllum í gærkvöldi.

„Haukar eru með gríðarlega sterkt lið en Snæfell er líka með frábært lið. Snæfell er líka með frábæran erlendan leikmann sem getur klárað leiki upp á sitt eindæmi. Þetta verður barátta á milli Haiden og Helenu,“ segir Daníel og þær skoruðu báðar yfir hundrað stig í leikjunum fimm.

Haiden hafði betur og var kosin besti leikmaður úrslitaeinvígisins.

„Þetta getur dottið báðum megin en í þessu einvígi, sem verður stál í stál, þá tel ég að Snæfell hafi yfirhöndina. Þær eru líka með gríðarlega sterkan leiðtoga í Gunnhildi og eru ríkjandi meistarar sem hjálpar þeim líka,“ segir Daníel og þar er greinilega mjög góður spámaður á ferðinni.


Tengdar fréttir

Ingi sýnir breikdans | Myndband

Ingi Þór Steinþórsson, þjálfari Snæfells, var að sjálfsögðu í sjöunda himni eftir að stelpurnar hans tryggðu sér Íslandsmeistaratitilinn með sigri á Haukum í oddaleik á Ásvöllum í kvöld.

„Bara eitt stórveldi á Íslandi í dag“

Berglind Gunnarsdóttir þurfti að taka ákvörðun fyrir nokkrum árum um hvort hún ætlaði að halda áfram að spila körfubolta vegna þrálátra axlarmeiðsla. Hún gafst ekki upp og varð Íslandsmeistari með Snæfelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×